Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna

Útungun og ungar

Vandasöm útungun

Útungun er ekki tómt grín, í henni felst talsverð vinna jafnvel þótt ræktandinn sé með risastóra vél eða rándýra. Á bak við góða útungun felst talverð umhirða á undaneldisfuglunum sem þurfa að vera hraustir og frjósamir og mikil fyrirhöfn í vali á eggjum og gát á útunguninni. Það er líka óvíst með árangurinn, -  margt getur misfarist á þeim vikum frá því að eggi er verpt og þar til heilbrigður ungi kemst til nýs eigenda. Allur sá ferill byggir á því að allt sé í lagi, fullorðnu hænsnin, eggin og tækjabúnaðurinn og að ýmsu þarf að hyggja varðandi eggin sjálf meðan þau eru í vélinni.

Viðurkenndar útungunarvélar
Til eru margs konar útungunarvélar á markaðinum, en allar hafa þær sína kosti og galla. Vélarnar eru misstórar og misdýrar, þær stærstu sem taka mörghundruð egg en þær henta afar fáum og svo undarlega vill til að þær eru síst betri en hinar. Minni útgáfur, sem taka 6-40 egg, eru til í ýmsum verðflokkum og þær tæknivæddustu og dýrustu spara talverða vinnu við að snúa eggjunum og áhyggjur af  hita- og rakastigi. Þær eru þó engan veginn fullkomnar og skila ekki alltaf betri árgangri en þær ódýrari sem krefjast mun meiri vinnu af ræktandanum. Hiti á að vera á bilinu 37,5 - 38  gráður og raki  45-50 %  við útungun og séu aðstæður ekki réttar er næsta víst að klakið mistekst. Reynslan hefur reyndar kennt mörgum okkar að rakinn má heldur vera meiri en minni en gefinn er upp - það gefur betri útkomu en of mikill þurrkur. Útungunarvélar með stafrænum hita- og rakastillum halda kjöraðstæðum á meðan rafmagnið fer ekki, en ef það gerist er voðinn vís.

Útungun undirbúin
Nauðsynlegt er að kveikja á útungunarvélinni daginn áður en eggin eru sett í hana til að hún sé búin að ná réttu hita- og rakastigi. Vélin verður að vera tandurhrein því óhreinindi geta valdið sýkingum í gegnum skurn eggjanna og þarmeð dauða fóstranna. Ný vél er tilbúin til notkunar en notuð útungunarvél þarfnast góðrar umhirðu. Vélarnar á alltaf að ryksuga þegar klaki er lokið (eða blása úr þeim), síðan á að þvo þær upp úr mildu sápuvatni og láta þorna vel áður en þær eru settar í geymslu. Notið ekki kemisk efni til hreinsunnar, það er óþarfi og ekki vistvænt. Ef vélarnar eru hreinsaðar vel milli hvers klaks skila þær áfram góðum árangri.

Að velja eggin
Til að eggin séu frjó þurfa að vera einn hani á  hverjar 7-8 hænur og hanarnir þurfa auðvitað að vera frískir og fjörugir. Gamlir eða veikburða hanar eru yfirleitt meginástæðan fyrir ófrjóum eggjum. Eggin mega heldur ekki vera of gömul þegar þau eru sett í vélina. Egg sem á að klekja út þarf að týna nýorpin og geyma við 8-16 gráður, á þriðja degi fer frjósemin í þeim að minnka örlítið og eftir fimmta fara líkurnar á klaki hraðminnkandi með hverjum degi. Ekki er ráðlegt að setja í vélar egg sem eru orðin meira en vikugömul. Eggin verða að vera heil og ósprungin. Ósýnilegar sprungur geta verið í eggjunum svo það borgar sig að bera þau upp að ljósi til að skoða skurnið gaumgæfilega. Ef minnsta sprunga leynist í egginu opnast rifa í skurnið þegar unginn fer að vaxa og hann deyr. Veljið alltaf stór og fallega löguð egg til útungunar og gætið þess að þau séu náttúrulega hrein (úr hreinum varpkassa). Ef eggin eru geymd í nokkra daga  er gott að snúa þeim u.þ.b. tvisvar á dag til rauðan setjist ekki til.

Í hitann og rakann
Um leið og eggin eru komin í hitann og rakann byrjar fóstrið að þroskast og á einni viku myndast æðanet sem sést greinilega ef eggin eru skyggnd. Ég skanna eggin vikugömul og tek þá úr vélinni þau egg sem ekki hefur kviknað í líf. Ófrjó egg geta farið að fúlna og gefa frá sér óæskilegar lofttegundir. Þessa aðgerð þarf að undirbúa vel til að eggin kólni sem minnst við skoðunina.
Eftir það er best að opna vélina sem minnst og alls ekki í kulda eða súgi, það ruglar hita- og rakastigið sem getur haft óæskileg áhrif á klakið. Egg sem eru orðin vel þroskuð eftir vikudvöl í vélinni klekjast venjulega þokkalega vel út. Það getur þó verið mjög mismunandi hversu stórt hlutfall unganna klekst lifandi og oft er erfitt að greina ástæðurnar. Ef ungarnir eru á einhvern hátt veiklaðir drepast þeir stundum í eggjunum og á mismunandi þroskastigi. Stundum er orsökin erfðafræðileg, en óhreinindi á eggjum eða í vél hafa stundum valdið slíkum skaða. Þegar ungar drepast á síðustu þrem dögum útungunarinnar og þegar þeir drepast eftir að komið er gat á skurnið er oftast talið að ástæðan sé þurrkur. Síðan ég fór að hafa meiri raka í vélinni hefur útkoman batnað, ungarnir eru hraustari og ekki í vandræðum að komast úr egginu eftir að þeir hafa brotið á það gat. Oft fer að  heyrast tíst í lokuðum eggjum á 19 degi og nokkrum klukkustundum síðar má sjá lítið gat á egginu. Það tekur ungann allt að sólarhring að brjótast úr út egginu, en kraftmiklir ungar geta komist úr eggi á nokkrum klukkustundum. Sumum ungum veitist erfitt að brjótast úr egginu og þá leitar stundum sú spurning á ræktandann hvort hann gæti "hjálpað eða bjargað" unganum.  Í flestum tilfellum er svarið einfaldlega nei. Ef farið er að plokka í skurnið er veruleg hætta á blæðingum sem drepa ungann. Ef heilbrigður ungi er í vandræðum með að komast úr egginu er ástæðan oft þurrkur og þá er helsta hjálpin fólgin í því að auka rakann í  útungunarvélinni til að mýkja skurnina.

Jóhanna Harðardóttir

 

Hæna liggur á

Sumar hænur eru duglegri en aðrar að safna undir sig eggjum og liggja á en aðrar hænur verpa gjarna undir þær. Þessar hænur eru mjög ásætnar og fara helst ekki af hreiðrum nema rétt til að fá sér vatn eða korn í gogginn augnabliksstund. Eftir 1-2 daga í hreiðrinu eru þær búnar að breiða úr sér og þá eru þær fyrst komnar í stuð til að liggja kyrrar í þær þrjár vikur sem þarf til að koma upp ungum. Sumar lausagönguhænur láta sig hverfa úr hænsnakofanum og vilja ekki vera á hreiðri í kofanum af ótta við truflun. Þær eru stundum taldar af en koma svo vappandi með ungana mánuði seinna.

Ró og friður
Mjög skemmtilegt er að leyfa hænunum að liggja á eggjum sínum og koma sjálfum upp ungum. En ef ánægjan á að vera sönn þarf hænsnakofa með góðar aðstæður. Til að hænurnar fái frið þarf að stúka þær af. Aðrar hænur reyna að komast á eggin og trufla. Sumir halda að hænurnar séu að "hjálpa " hver annarri þegar þær skiptast á um að fara á eggin, en þannig er það alls ekki (hænur hugsa ekki þannig). Ef hænan í hreiðri fær ekki að vera þar ein og í friði endar það oftast með því að hún hrekst af eggjunum. Ef fleiri en ein hæna liggur á eggjunum og fer síðan af þeim þegar minnst varir geta eggin kólnað og unginn drepist í þeim. Ef maður ákveður að leyfa hænu að liggja á verður að veita henni almennilega aðstæður til þess, girða hana af fóðra og brynna henni sér. Hver hæna getur vel legið á 10 eggjum og það er því um að gera að að safna undir hana eggjum frá öðrum hænum.

Ungarnir koma
Bestu aðstæðurnar fyrir hænu á eggjum er góður varpkassi með neti í kringum og inni í honum er hafðir litlir vatns- og fóðurdallar svo hún þurfi ekki að fara frá eggjunum. Hænan liggur þá á eggjunum í friði og eftir 21 dag koma ungar. Hún liggur að mestu kyrr eftir að ungarnir byrja að klekjast, en eftir uþb þrjá daga fer hún að hreyfa sig meira. Eftir það má taka afganginn af eggjunum því þá er líklegt að þau séu ófrjó eða að ungarnir hafi drepist. Eftir að ungarnir eru komnir þarf að gefa hænunni ungafóður (Ungi 1) og vatn á stað þar sem ungarnir ná til þess. Það má ekki vera í svo djúpu íláti að hætta sé á að þeir drukkni. Ekki má borða egg úr hænum sem éta ungafóður þar sem í því er hnýslasóttarlyf.

Hæna með unga
Hænan passar ungana af talsverðri grimmd fyrstu 1-2 vikurnar og heggur til hvers sem reynir að nálgast þá og er þá eigandinn stundum ekki undantalinn. Um það leyti má fara að hleypa hænunni út úr prísundinni með ungana en í fyrstu er öruggara að hafa til staðar skjól sem þeir geta hlaupið í og fullorðnar hænur komast ekki inn í. Það er sjálfsagt að fylgjast vel með hænunni og ungunum fyrst um sinn því kettir, ránfuglar, hundar, refur eða minkur geta ráðist á ungana. Einnig hefur komið fyrir að ungar hafi í hræðslu sinni þvælst inn í eða undir eitthvað, fest sig þar og drepist úr kulda og hungri. Það er afar gaman að fylgjast með hænunni þegar hún er komin á stjá með unga sína. Hinar hænunar sýna ungastóðinu mikinn áhuga en það líður alltaf svolítill tími áður en hænan treystir þeim til að nálgast unga sína. Þá er einnig gaman að sjá fyrstu tilraunir unganna til að sýna sjálfstæði og viðbrögð þeirra við umheiminum.

Jóhanna Harðardóttir

Mynd-Brynhildur Inga

Ungarnir koma heim

Unga sem koma úr útungunarvél er best að taka um leið og þeir klekjast út, þeas 21 degi eftir að eggin eru sett í hana. Til þess að vel takist til þarf að undirbúa komu þeirra vel.
1.    Ungastían þarf að vera alveg hrein. Ef fuglar eða önnur dýr hafa verið í stíunni þarf að þvo ungastíuna með sótthreinsiefni hálfum mánuði áður en ungarnir koma og láta hana standa auða þangað til. Best er að þvo svæðið fyrst með sápuvatni og síðan sótthreinsa því sótthreinsunarefni gera ekki gagn þar sem óhreinindi eru fyrir.
2.    Setjið u.þ.b. 10 sentimetra þykkt lag af sagi eða heyi á gólfið til að einangra það og gera það þægilegra fyrir ungana.  Hægt er að fá keypta bagga með hreinsuðu sagi, eða með pappakurli (t.d. Fóðurblanda eða Lífland) sem hentar mjög vel til að strá yfir svæðið að endingu.
3.    Ef ungarnir koma innan við sólarhring frá klaki er ekki hætta á að þeir fari að éta gras eða sag af gólfinu, en ef þeir eru eldri eru þeir mjög svangir og þá er vissara að breiða pappír yfir allt gólfið þangað til þeir hafa örugglega vanist á að éta ungafóðrið.
4.    Staðsetjið hitaperuna þannig að hún sé yfir miðju gólfinu og kveikið á henni til að athuga hvort örugglega sé ekki allt í lagi. Peran á að vera í u.þ.b. 30 sm hæð til að byrja með, og hitastigið undir henni á að vera á bilinu 32- 35 gráður fyrstu dagana.
5.    Setið vatn helst á tvo staði í stíunni til að tryggja öllum ungunum aðgang að vatni í einu. Setjið vatnið í tankana nokkrum klukkustundum áður en ungarnir eru sóttir til að tryggja að það sé mátulega heitt. Staðsetjið vantsdallana við útjaðar rauða ljóssins svo ungarnir geti valið sér mátulegan hlýjan stað til að drekka á.

Ungarnir eru komnir

1.    Fyrsta daginn þarf að gefa ungunum á gólfið, en jafnframt því að setja fóður í fóðurbakkana.  Ungarnir leita oft á gólfið fyrstu dagana, en um leið og þeir hafa lært að éta ungafóðrið fara þeir að leita að því og venjast þá á bakkana. 
Best er að leggja tvö blöð af eldhúsrúllu á gólfið og strá korninu á þau og skipta  síðan reglulega til að gæta hreinlætis meðan ungarnir eru sem viðkvæmastir. 
2.    Eftir u.þ.b. viku er þolið  og sjálfsbjargarhvötin orðin sterk og eftir það er óþarfi að fylgjast eins vel með fóðrun þeirra. Sjáið til þess að alltaf sé nóg af ungafóðri í fóðraranum og hreint vatn í vatnsdöllum og þá munu ungarnir bjarga sér sjálfir.
3.    Stillið hæð fóðrara og vatnsdalla þannig að brúnin sé í bakhæð fuglanna, Þannið tryggið þið að þeir róti ekki eða skíti í vatnið og fóðrið.
4.    Þegar ungarnir eru u.þ.b. þriggja vikna gamlir má vera búið að venja þá af hitaperunni. Þá má einnig fara að setja þá út þegar veður er milt og þurrt.
5.    Þegar ungarnir eru orðnir u.þ.b. 6- 8 vikna gamlir má setja þá með fullorðnu hænunum. Það er gott að fylgjast með þeim fyrstu dagana svo hægt sé að kippa út úr hænsnaskaranum ef einhver þeirra lendir í einelti. Það er gott ráð að setja kassa  með tjaldi fyrir inn í hænsahúsið svo ungarnir geti forðað sér undan hænunum. Hann þarf þá að vera mátulega hár til að ungarnir sleppi undir brúnina en hænurnar ekki.
6.    Við þennan aldur er ungunum ekki hættara en öðrum hænsnum. Það er þó betra að halda áfram að fóðra þá með ungafóðri (Ungi2 fyrir eldri unga) ef hægt er, en gætið þess að ekki má éta egg úr hænum sem éta ungafóður 1 þar sem í því eru lyf.

Jóhanna Harðardóttir

Kyngreining

Strákur eða stelpa?

Kyngreining dagsgamalla unga eru vísindi sem þarf bæði tækjabúnað og þekkingu til að framkvæma. Það er síður en svo einfalt að kyngreina unga af útlitinu einu saman, en þeir sem hafa langa reynslu af að skoða nýklakta unga og fylgjast með þeim þroskast sjá stundum fljótlega hvors kyns unginn er þótt oft sé erfitt að taka ábyrgð á slíkum kyngreiningum. Við sölu á kyngreindum ungum er því oft sleginn sá varnagli að reynist kyngreiningin á einhverjum unganna röng eigi kaupandinn rétt á öðrum unga í staðinn um leið og tækifæri gefst, eða að unginn er tekinn til baka og endurgreiddur af seljandanum.

En í flestum tilfellum gengur þetta vel og mistökin eru sjaldgæf hjá vönu fólki eftir að unginn er orðinn 6-7 vikna gamall. 8 vikna gamlir hanaungar eru orðnir vel þekkjanlegir úr hænuhópnum á útlitinu svo enginn ætti að villast á þeim og auk þess eru þeir oft farnir að bera sig til við að gala.
Það fyrsta sem kemur upp um kynið er stærðin á hausnum og þykkt leggjana en stundum er hægt að sjá greinanlegan mun milli kynja strax á fyrsta sólarhring ef þetta er skoðað. Þessi munur minnkar síðan aftur og því er ekki hægt að nota þessa greiningu eftir 2-3 daga.
Með því að fylgjast vel með hegðun unganna fyrstu vikurnar má oft sjá hvers kyns þeir eru. Hanarnir eru oft frakkari og abbast frekar upp á hina ungana, reigja sig og gera breiða.  Sumir þeirra byrja jafnvel að "fljúgast á" strax þriggja vikna gamlir eða fljótlega upp úr því.
Fyrstu öruggu merkin um að ungi sé karlkyns eru separnir sem byrja að vaxa undir hausnum. Separnir fara stundum að sjást um 6.viku hjá hönunum sem mynda sepa mun fyrr en hænurnar. Separnir verða fljótlega rauðleitir og eru oft orðnir nokkuð áberandi áður en þeir byrja að sjást á hænunum. Einnig myndast nabbar á leggjum hananna um svipað leiti, eða á 6.-7. viku. Nabbarnir eru fyrstu merki um spora og eru neðarlega og innarlega á leggnum. Nabbarnir haldast lengi óbreyttir, en eru samt örugg merki um að þar sé hanaungi á ferð. Kamburinn á hönum roðnar mun fyrr en á hænunum og eru stundum orðnir háir og rauðir áður en kambur hænanna tekur breytingum, þetta er þó ekki eins áberandi hjá hönum með blöðrukamb.

Jóhanna Harðardóttir

Knúið áfram af 123.is