Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna

Lög félagsins

Lög:   Eigenda og ræktendafélags Landnámshænsna

 

1.grein

Félagið heitir Eigenda- og ræktendafélag Landnámshænsna. Heimili þess og varnarþing er hjá Bændasamtökum Íslands í Reykjavík.

2.grein

Félagar geta þeir orðið sem eiga landnámshænur, svo og allir þeir sem áhuga hafa á ræktun og verndun landnámshænsna á Íslandi. Félagssvæði er allt landið.

3.grein

Hlutverk félagsins er:

-  að stuðla að viðhaldi og verndun hins íslenska kyns landnámshænsna og vinna að ræktun þess í samvinnu við Bændasamtök Íslands, Erfðanefnd landbúnaðarins og aðra þá aðila sem vilja leggja málinu lið, svo sem með skýrsluhaldi, leiðbeiningum og rannsóknum.

-  að vinna að kynningu á landnámshænum, svo sem söfnun og skráningu heimilda um landnámshænur á ýmsum tímum, gerð og dreifingu upplýsinga- og fræðsluefnis og með sýningahaldi.

-  að kanna leiðir til að skapa landnámshænsnum veglegan sess við mismunandi búskaparhætti og jafnvel sem gæludýr.

-  að halda skrá um þá sem stunda ræktun og sölu á vottuðum landnámshænum, þ.e.a.s. fuglum sem falla undir lýsingu á einkennum íslensku landnámshænunnar.  

4.grein

Tekjuöflun til nauðsynlegra verkefna skal ákveða á hverjum aðalfundi samkvæmt áætlun fyrir næsta ár. Félagsgjöld skulu einnig ákveðin frá ári til árs. Reikningsár félagsins miðast við almanaksárið.

5.grein

Stjórn félagsins skipa þrír menn, formaður, gjaldkeri og ritari. Skulu þeir kosnir á aðalfundi til þriggja ára í senn. Ganga þeir úr stjórn þannig að formaður gengur úr eftir eitt ár, gjaldkeri eða ritari eftir tvö ár með hlutkesti, hinn þriðji (gjaldkeri eða ritari) eftir þrjú ár og helst röðin þannig áfram. Þá skal einnig kjósa þrjá varamenn og tvo skoðunarmenn reikninga til tveggja ára í senn þannig að einn varamaður og annar skoðunarmaður gangi úr eftir ár, síðan sitt árið hver með hlutkesti í fyrsta sinn.

6.grein

Aðalfund skal halda árlega.

Aðalfund skal boða skriflega til félagsmanna og með tilkynningu á vefsíðu félagsins a.m.k. 10 dögum fyrir fund.

Þar gerir stjórnin grein fyrir störfum félagsins á liðnu ári, leggur fram tillögur um verkefni næsta árs og leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins.

Aðalfundur telst löglegur ef löglega er til hans boðað.

7. grein

Tillögur um lagabreytingar skulu kynntar með aðalfundarboði.

8.grein

Ef slíta skal félaginu skulu eignir þess renna í sérstakan verndunarsjóð fyrir landnámshænur í vörslu Bændasamtaka Íslands og setur síðasta stjórn skipulagsreglur um meðferð sjóðsins í samráði við Bændasamtök Íslands.

 

Eigenda- og ræktendafélag Landnámshænsna

Húsatóftum I, Skeiðum 801 Selfoss

Gerstu félagi og styddu við bakið á landnámshænunni

Árgjaldið er aðeins 2500 krónur.  

Reikn: 0325 - 13 - 100359.  Kt: 5408060470

Þeir sem greiða gjaldið teljast félagar Í ERL.   

Fyrir útlönd :
IBAN: IS24 0325 1300 100359 54080604 70
bankaccount: 0325 - 13 - 100359

Knúið áfram af 123.is