Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna

Um Landnámshænuna

Landnámshænan

Talið er að  íslenska landnámshænan sé afkomandi hænsnastofns sem barst til landsins með landnámsmönnum fyrir um ellefuhundruð árum, samt eru tiltölulega fáar heimildir til um upprunann. Þó er til sagan af Hænsna-Þóri sem ræktaði og seldi fiðurfénað og getið er hananna Fjalars og Gullinkambs í Völuspá og hins þriðja sem ekki er nafngreindur. Einnig er hænsna getið í Flóamannasögu og í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen er getið um hænsn í Nesjum, að Lóni og á Héraði árið 1894.

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar sem ferðuðust um landið árin 1752 - 1757 segir svo: "Hænsni eru á hverjum bæ í Öræfum. Þau eru öll svört og greinilega smávaxnari en venja er til um hænsni. Þau verpa mjög vel, þótt þau fái aldrei korn, en lifa á ormum og möðkum á sumrin, en á vetrum er þeim gefið smátt saxað hey með mjólk og flautum. Það væri gagnsamlegt, ef menn víðar á landinu vildu stunda hænsnarækt."

Móðuharðindin árin 1783-1785, höfðu slæm áhrif á alla búfjárstofna í landinu. Í ritinu Skaftáreldum 1783-1785 er þess til dæmis getið að land- og sjófuglar hafi drepist í þúsundatali af eitrun og kulda. Talið er að móðuharðindin hafi næstum gert út af við íslenska hænsnastofninn, aðeins voru örfáar hænur í nokkrum sveitum undir lok 18. aldar. Áætlað er að íslenski hænsnastofninn hafi verið um 20-30 þúsund fuglar fyrstu aldirnar eftir landnám, þó einu skráðu heimildirnar, sem til eru um fjölda hænsna í landinu, séu skýrslur frá árinu 1919 en þá voru 2.232 hænsnfuglar í Reykjavík.

Eftir að farið var að flytja inn til landsins erlend hænsnakyn til eggjaframleiðslu var íslenski stofninn aftur kominn í útrýmingarhættu á miðjum áttunda áratugnum. Því er stofn íslensku landnámshænunnar í dag, kominn af tiltölulega fáum fuglum sem safnað var saman víða að á landinu á áunum 1974- 1975 af  Dr. Stefáni Aðalsteinssyni. Stefán valdi fugla sem hann taldi vera af gamla upprunalega stofni íslensku hænsnanna, með það fyrir augum að bjarga stofninum. Fuglarnir voru fyrstu 10 árin hjá Rannsóknarstofnun Landbúnaðarins að Keldnaholti en svo var afkomendum þeirra fyrst komið fyrir að Bændaskólanum á Hvanneyri og síðar á tveimur bæjum í Borgarfirði, að Syðstu Fossum og að Steinum II.

Ekkert skýrsluhald er yfir stofnstærð íslensku hænunnar en áætlað er að stofninn telji í dag um það bil 3000-4000 dýr. Virk stofnstærð íslensku hænunnar er því lítil, eða 36,,2 einstaklingar (BS. Ó. Guðmundsdóttir 2011) en til samanburðar er hún á bilinu 70-3000 einstaklingar fyrir ýmsa aðra hænsnastofna í Evrópu. Töluverður erfðafjölbreytileiki virðist þó vera til staðar í stofni íslensku hænsnanna. Það er því mikilvægt að fylgjast með stofnstærðinni og reyna að stuðla að því að hún fari ekki minnkandi. Eins þarf að hvetja eigendur til að lágmarka skyldleikaræktun svo virk stofnstærð minnki ekki frekar. (BS. Á. Stefánsdóttir 2012) 

Árið 2003 var stofnað félag til verndar íslensku hænunni,  Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna  sem hefur það að markmiði að halda landnámshænsnastofninum hreinum, heilbrigðum og litfögrum. Einnig stuðlar félagið að fræðslu fyrir eigendur og ræktendur landnámshænunnar, stendur fyrir sýningum og heldur úti þessari vefsíðu.

Íslenska hænan er landkyn en það er skilgreint sem  kyn sem hefur fengið að aðlagast og þróast á náttúrulegan hátt. Landkyn eru yfirleitt aðgreind frá sérstökum ræktunarafbrigðum og frá strangt stöðluðum kynjum, því þau hafa fengið að aðlagast án mikillar aðkomu mannsins, til dæmis með að velja fugla til undaneldis eftir eggjaframleiðslu, stærð fugla eða öðrum eiginleikum. Ræktaðar tegundir hafa því tilhneigingu til að verða erfðafræðilega einsleitar en landkyn eru erfðafræðilega fjölbreytt. Markvisst valin dýr til ræktunar í fjölda kynslóða framleiðslustofna hefur til dæmis leitt til lækkunar á líffræðilegum fjölbreytileika og þar með minna viðnámi gagnvart sjúkdómum.

Landkyn eru því  ,,lón erfðaauðlinda" og mjög mikilvægt að blanda þeim ekki við önnur kyn í ræktun.

Árið 1994 var gerð rannsókn af Dr. Stefáni Aðalsteinssyni, þá voru blóðsýni tekin úr 50 hænsnum af gamla íslenska hænsnastofninum og þau greind eftir vefjaflokkum. Í ljós kom að alls voru 28% af gömlu íslensku hænsnunum með vefjaflokka sem þekktir voru í helstu varphænsnastofnum í nágrannalöndunum en 72% þeirra voru með vefjaflokka sem voru að mestu óþekktir. Þó fundust tveir vefjaflokkar sem voru líkir þeim vefjaflokkum sem eru algengir í gömlum norskum hænsnastofni. Þetta gæti bent til skyldleika milli íslensku hænsnanna og gamla norska hænsnastofnsins sem kallast Jaðarhænsni (Jærhöns).

Á árunum 1998-2000 var verkefnið AvianDiv unnið á vegum FAO (Food and Agriculture Organization of the United Nations), en í því var safnað saman sýnum úr 52 hænsnakynjum og erfðafjölbreytileiki metinn með örtunglagreiningu, Íslenska hænan var eitt af þessum hænsnakynjum. Íslenska hænan var einnig hluti rannsóknar frá 2001 sem gerð var á skyldleika 30 hænsnakynja, þar kom verulega á óvart að íslenska hænsnakynið virðist vera skylt óræktuðu hænsnakyni frá Mið-austurlöndum. Talið var að líkindin með þeim væru af því að báðir væru óræktaðir stofnar og að íslenska hænan gæti upphaflega hafa komið af austurlensku kyni. Í rannsókn sem gerð var 2011 af Ólöfu Ósk Guðmundsdóttur um erfðafjölbreytileika innan íslenska hænsnastofnsins kom í ljós að íslenski hænsnastofninn stendur nokkuð vel hvað erfðafjölbreytileika varðar. Meðalskyldleikarækt í stofninum er 12,5% sem er mun lægra en sést í mörgum framleiðslustofnum. (BS. Ólöf Ósk Guðmundsdóttir 2011) Í rannsókn um erfðafjölbreytileika sem gerð var 2014 segir að þó íslenski stofninn sé staðsettur í meira en 2000 km. fjarlægð frá meginlandi Evrópu, þá sé athyglisvert að hann hafi mestan skyldleika með hænsnastofnum í norð-vestur Evrópu. Íslenski stofninn er skyldastur tveimur gömlum þýskum stofnum, Bergische Schlotterkaemme og Ostfriesche Mowen og svo þeim ítalska sem kallst Svartir Ítalir, þó engar sögulegar skýringar séu til á þeim skyldleika. (Global diversity/C. M. Lyimo 2014) 

Erfitt er að fullyrða án frekari rannsókna að íslenski hænsnastofninn sé kominn af hænsnum sem bárust hingað með landnámsmönnum en hvort sem íslenska landnámshænan er stofn upprunalegra hænsna eða ekki, þá er hún samt sérstakur íslenskur stofn sem þarf að varðveita.

Íslenski hænsnastofninn er erfðaauðlind sem Íslendingum ber að varðveita.

Eigenda- og ræktendafélag Landnámshænsna

Húsatóftum I, Skeiðum 801 Selfoss

Gerstu félagi og styddu við bakið á landnámshænunni

Árgjaldið er aðeins 2500 krónur.  

Reikn: 0325 - 13 - 100359.  Kt: 5408060470

Þeir sem greiða gjaldið teljast félagar Í ERL.  

Fyrir útlönd : 
IBAN: IS24 0325 1300 100359 54080604 70
bankaccount: 0325 - 13 - 100359 

 

Knúið áfram af 123.is