Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna

Kofar og aðbúnaður

Kofar og aðbúnaður

Það þarf að ýmsu að gæta áður en fólk fær sér hænur í bakgarðinn. Best er að staðsetja  hænsnakofann þar sem er rólegt og ekki mikil umgengni. Fuglarnir eru viðkvæmir fyrir hávaða og öllum óvæntum hljóðum og geta stressast upp við mikla umferð í námunda við kofann.

Kofinn
Huga þarf að stærð hænsnakofans og hvort möguleiki sé á stækkun seinna, ef fólk vill fjölga fuglunum. Viðmiðunarreglan er 4 fuglar á hvern fermetra af gólffleti kofans og gott er að gera ráð fyrir einhverju geymslurými fyrir  t.d. poka af spæni og matarpoka, hreinsiefni og ýmislegt fleira. Kofinn þarf að vera hlýr og þurr og lofta vel. Sumir velja að einangra kofann og þurfa þá ekki að gera ráð fyrir neinni upphitun, fyrir utan einhverskonar hitagjafa yfir köldustu frostanæturnar svo vatnið frjósi ekki og til eru ýmsar útfærslur, bæði eingöngu fyrir vatnið eða fyrir allan kofann.  Hér fyrir neðan eru tenglar sem hægt er að skoða.
Kjörhitastig fyrir hænur er 8-10°c en það er allt í lagi þó hitinn fari niður fyrir það í einhvern tíma yfir nóttina, hænurnar þola það vel en eiga verra með að þola of mikinn hita, þá reyta þær sig. Gott er að hafa ljós hjá þeim í mesta skammdeginu ef þær eiga að haldast í varpi yfir veturinn en sumir kjósa að halda þær á náttúrulegan hátt og nota þá hvorki ljós eða hita.

Varphólfin
Varphólfin er best að hafa ca. 30 cm. á kant, lokað á milli þeirra og prik eða stöng fyrir framan svo auðveldara sé fyrir fuglinn að komast í þau. Venjulega er miðað við 1 varphólf fyrir 3-4 hænur. Setjið spæni eða þurrt hey í varphólfin og hreinsið reglulega eða bætið ofan á daglega svo eggin haldist hrein.

Aðbúnaðurinn
Prik eða þverstangir þurfa að vera fyrir fuglana til að hvílast og sofa, margir útbúa stiga með rimum sem þeir halla upp að vegg, þá kemur fuglinn sér þar fyrir og auðvitað í réttri röð miðað við ,,goggunarröð" innan hópsins. Best er að hafa prikin/stigann úr tré eða mátulega þykkum greinum og hann þarf að falla í raufar svo hann sé fastur, en hægt að losa svo auðvelt sé að þrífa undir þegar kofinn er hreinsaður. Stráið spæni á gólfið og skiptið út eftir viku eða 10 daga.
Best er að hafa lúguna lágt eða neðst á vegg, þá fer Starin síður inn um lúguopið og staðsetningin fyrir lúguna er best á gaflinum, þá er síður hætta af snjóhengjum sem geta fallið af þaki og eins dropar ekki yfir lúguna í miklum rigningum. Góður hleri þarf svo að vera til að loka á kvöldin svo minkur eða refur komist ekki inn í kofann.
Ílát fyrir fóður og vatn þurfa að vera hengd upp eða á upphækkun svo spænir og annað (sem fuglinn rótar mikið til) fari síður í matinn og vatnið. Best er að ílátin séu með botninn í sömu hæð og bak fuglanna. Ílátin, fóðrið og annað sem þarf er hægt að versla í flestum búvöruverslunum.
Hænum er síðan nauðsyn að hafa skeljasand eða annan kalkgjafa sem þær komast auðveldlega í, til að mynda skurn utan um eggið, skeljasandurinn kemur í veg fyrir kalkskort.
Þessum hænsnum er eiginlegt að ganga frjáls útivið en ekki hafa allir aðstæður til þess, þá þarf að útbúa gerði í kringum kofann. Þéttriðið garðanet plasthúðað er best, hafið það ca. 120-130 cm. á hæð og svo ca. 50 cm. sem halla aðeins inn í gerðið, það minnkar plássið sem fuglinn þarf til að komast á flug. Ekki setja spýtu eða borð efst, þá hefur fuglinn stökkpall til að komast yfir. Sumir girða alveg yfir gerðið og er það mjög góð vörn gagnvart vargfuglinum sem sækir í ungana og tekur jafnvel unghænur líka.

Hér fyrir neðan eru tvær fríar teikningar af kofum í mismunandi stærðum og útfærslum!

Kofi A Teiknaður af ArkÞing í júní 2003 fyrir 15-20 fugla.

Kofi B Teiknaður af H. Ármannsson í júní 1983 fyrir 30 fugla.

Vonandi hjálpar þetta ykkur eitthvað og ef þið hafið einhverju við að bæta, þá endilega sendið okkur póst.
Öll höfum við mismunandi reynslubanka og góð ráð eru vel þegin!

Kofi A.pdf

Kofi A teikning

Kofi Bb.pdf

Kofi B teikning

Knúið áfram af 123.is