Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna

Heilsufar og sjúkdómar

Hnýslasótt

Hnýslasótt er veiki sem getur komið upp hjá hænsnum. Í byrjunarfóðrinu Ungi I er hnýslasóttar lyf sem á að gefa fuglinum ævilangt ónæmi, samt getur sóttin komið upp hjá einstaka fullorðnum fuglum.
Sóttin lýsir sér helst þannig að fuglinn verður daufur, nærist ekki, er valtur á fótum og með niðurgang.
Byrjið á því að einangra fuglinn/fuglana því hnýslasóttin er mjög smitandi. Ef þið eigið Ungi 1 gefið það þá strax, ef fuglinn er orðinn það slappur að hann tekur ekki til sín næringu sjálfur, hrærið þá Ungi 1 fóðrinu saman við volgt vatn, hafið blönduna frekar þunna  og dýfið goggnum í blönduna, fuglinn reisir þá höfuðið og drekkur. Ef þetta dugar ekki þá er hægt að fá hjá dýralæknum súlfatöflur sem eru settar í vatnið. Fuglinn ætti að jafna sig á einni viku en haldið honum í einangrun í 10 daga til öryggis.
Hnýslasóttin getur drepið fuglinn á nokkrum dögum ef ekkert er gert svo byrjið meðferðina strax.
Þrífið svo vel kofann og sótthreinsið svæðið þar sem fuglinn hafðist mest við. Fylgist með hópnum næstu daga.

Eggjastífla

Unghænur sem eru nýbyrjaðar að verpa eða byrja varpið of snemma geta fengið eggjastíflu og það kemur fyrir að ein og ein eldri hæna fær þetta líka. Eggjasífla er það kallað þegar eggið er of stórt og stendur fast í mjaðmagrindinni eða að hún hefur ekki fengið nóg kalk, því kalkið er nauðsynlegt fyrir samdráttin í vöðvanum sem þrýstir egginu út.
Þetta lýsir sér þannig að hænan á erfitt með gang og sest reglulega niður eftir nokkur skref eða hún liggur og vill ekki stíga í fæturna.
Í flestum tilfellum er hægt að "nudda" eggið út. Dragið smá ólífuolíu upp í sprautu (án nálar) Leggið fuglinn yfir handleggin og látið höfuðið í handarkrikann, lyftið stélinu og sprautið olíunni í eggjaopið, setjið síðan tvo fingur milli fótanna á hænunni til að halda þeim sundur og strjúkið þétt niður eftir kviðnum að fótunum með hinni hendinni, nokkrum sinnum, setjið hana svo í sér búr og breiðið yfir það svo það sé dimmt og rólegt hjá henni. Fylgist með henni og ef eggið er ekki komið eftir 2-3 tíma þá er gott að setja hana í volgt bað og gefa henni sama nuddið á meðan, þá ætti eggið að koma út. Gerið þetta varlega því eggið má helst ekki brotna inni í hænunni, þá getur skurnin skorið hana.

Ef eggið kemur ekki út við þessa meðferð en þið finnið fyrir því eða sjáið jafnvel í það þá er neyðarúrræði að taka sprautuna og stinga gat á eggið með henni og sjúga úr því, þá ætti eggið að falla saman inn á við og koma út eða þið dragið það varlega út. Hænan getur verið slöpp og völt á fótum í nokkra daga á eftir.
Hafið í huga að gera þetta afar varlega, því ef það kemur skemmd í eggjaleiðarann þá í flestum tilfellum verpir hún ekki meira.

Mítlar

Fætur fugla eru þaktir hornflögum, líkt og snákaskinn. Ungir fuglar eru með sléttar og glansandi hornflögur en þegar fuglinn eldist verða hornflögurnar grófari og glansinn hverfur. Samt er ekki eðlilegt að fæturnir verði grófir og hrufóttir eða með hnúðum. Þá eru trúlega komnir mítlar í kofann. Mítillinn er örlítil blóðsuga sem kemur sér fyrir undir hornflögunum og nærist á blóði fuglanna. Þetta þarf að laga því fuglinn getur orðið haltur og jafnvel misst fótinn eða tærnar, því mítillinn getur stoppað blóðflæðið niður í fótinn. Einfaldast er að setja milt sápuvatn í vaskafat og fá sér flösku af ódýrri matarolíu. Þvo fuglinum fyrst í sápuvatninu, þurrka vel og dýfa fótunum svo í olíuna (líka hægt að nota júgursmyrsl eða Ad+ krem en þá þarf að nudda vel). Olían kæfir mítilinn og hann drepst. Þetta þarf að endurtaka nokkra daga í röð. Munið svo að þrífa kofann og skrúbba vel í hornin og alla staði þar sem mítillinn getur falið sig. Líka er hægt að kaupa Mítlasprey í flestum fóðurverslunum, þá er meðferðin sú sama, þvo, þurrka vel og spreyja, nokkra daga í röð.

Til vinstri: Veikur fótur með Mítla. Til hægri: Heilbrigður fótur.

Flær

Flær geta komið sér fyrir í fiðri hænsna. Mesta hættan er þó á að fuglarnir fái fló á veturna. Þá eru þeir mikið innivið og geta ekki baðað sig ef frost er í jörðu eða mikill snjór. Þá er gott að hafa hjá þeim blöndu af mold og sandi, svo þeir geti baðað sig og hreinsað. Helstu einkennin ef fugl er með fló eru mikill óróleiki og fuglinn er sífellt að plokka og snyrta fjaðrirnar. Ef mikið er af Stara á svæðinu eða ef Starin fer inn í hænsnakofann, þá eru sterkar líkur á því að það sé fló á hænunum. Ef þið komið fyrir moldar og sandbaði hjá fuglinum þá sér hann um að hreinsa sig sjálfur en þá þarf að þrífa kofann oft og vel næstu daga. Nátturúlegt efni sem drepur flærnar er kísill, gott er að dreifa honum vel í hornin á kofanum og undir spæninn, eins er hægt að setja kísil saman við moldar og sandblönduna, það hjálpar fuglinum að losna við flóna fyrr. Ef þið viljið aftur á móti losna við þetta strax þá er best að baða fuglinn upp úr mildu, volgu sápuvatni. Passið að gefa fuglinum góðan tíma til að þorna áður en hann er settur út aftur, því sápan eyðir náttúrulegu húðfitunni sem er í fjöðrunum og það tekur fuglinn nokkra daga að ná aftur upp fitunni í fjaðrirnar. Hægt er að blása í fjaðrirnar með hárblásara en hafið ekki mikinn hita, bara volgan blástur. Hreinsið svo vel kofann og þá ætti flóin að hverfa úr húsinu. Einnig er hægt að nota flóasprey sem fæst í öllum gæludýrabúðum, sem er notað á ketti eða hunda. Staldren er efni sem hægt er að strá undir spæninn og vel í allar glufur og horn, þá hafast engin sníkjudýr við í kofanum, það fæst í öllum búvöruverslunum.

Ormar

Ef fuglinn er daufur og slappur, hangir mikið inni í kofa þó veðrið sé gott og hann hreifir sig lítið, þá gæti hann verið með orma í meltingafærunum. Best er að fyrirbyggja þetta með því að setja alltaf smá slettu af eplaediki í vatnsdallinn, það kemur í veg fyrir orma í meltingarfænunum og bætir magaflóruna.

Knúið áfram af 123.is