Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna

Góð ráð

Hænsnasálfræði og fleira bitastætt fyrir alla..

Vanir hænsnaeigendur komast ekki hjá því að læra margt á búskapnum. Hér má finna mörg góð ráð fyrir þá sem sinna daglegu amstri í hænsnakofanum,"hænsnasálfræði og gagnlegt smælki um hænur og umönnun þeirra..

Svangir ungar
Dagsgamlir ungar geta verið orðnir mjög svangir þegar þeir koma á nýja stað. Komið í veg fyrir að ungarnir éti skít og sag af gólfinu með því að breiða eldhúsrúllupappír eða dagblaðapappír yfir gólfið þar til ungarnir hafa lært að éta uppúr fóðrurunum.

Köntuð hænsnaprik 
Áður fyrr var venjan að hafa hænsnaprikin rúnnuð eins og kústsköft. Hænsnunum líður þó betur á köntuðum eða óreglulega löguðum prikum. Gætið þess að ekki séu tréflísar á prikunum, bestu hænsnaprikin eru mátulega þykkar trjágreinar.

Nammi handa pútunum
Það er gaman að gleðja hænur með góðgæti og auðvelt að gera þær mannelskar með því að kalla á þær og gefa þeim eitthvað verulega gott að launum þegar þær koma hlaupandi. Prófið að gefa þeim poppkorn, hrátt maiskorn eða soðin hrísgrjón. Sannið til að þær munu hlaupa hratt ef þær eiga svoleiðis góðgæti í vændum.

Gamlar hænur
Vitað er um landnámshænur sem hafa náð 17-18 ára aldri þótt flestar lifi ekki svo lengi. Hænur geta átt langa og góða ævi ef þær haldast heilbrigðar. Hænur fitna oft með aldrinum og þá þarf að gæta þess að aðgengilegt sé að komast upp á prikin og í varpkassana. Fylgist vel með heilsu gamalla hænsna og hvort þau haldi stöðu sinni meðal ungu hænsnanna. Gamlar hænur njóta oftast mikillar virðingar í hænsnakofanum, en ef svo er ekki er hætta á að þær lendi í einelti.

Hænsna"bað"
Hænur elska að baða sig upp úr hreinum sandi eða mold. Þær leggjast þá í jörðina, krafsa upp þurran jarðveg og dusta honum yfir fiðrið. Síðan standa þær upp og hrista sig með tilheyrandi rykmekki. Góður sand- eða moldarfláki í hænsnagarðinum tryggir að hænurnar séu hamingjusamar.

Hanaslagur
Unghanar skemmta sér gjarna við að "fljúgast á". Það getur verið gaman að horfa á unghanana þenja sig og rífast og það er afar fágætt að þeir skaðist í áflogunum. Þegar hanarnir eru orðnir u.þ.b. ársgamlir hætta áflogin að vera skemmtun og þeir geta barist upp á líf og dauða.

Ef þarf að bæta við hana í hópinn er best að hann alist upp innan um hænurnar því nýr, fullorðinn hani sem settur er inn í hópinn er ávísun á vandræði.

Ef sér á hana eftir slagsmál og honum blæðir á umsvifalaust að taka hann út úr hópnum því annars er hætt við að hinn haninn (hinir hanarnir) muni einfaldlega ganga að honum dauðum.

Torf í varpkassann
Haldið varpkössum alltaf hreinum til að tryggja hrein egg og heilbrigði fuglanna. Sag og hey er afbragðs undirlag í varpkassann og bæta má þrifalagi ofan á nokkrum sinnum áður en skipt er um allt undirlagið. Áður fyrr var stundum sett torf í varpkassana og ofaná það svolítið hey sem síðan var skipt um öðru hverju. Hænurnar kunna vel að meta torf í varpkassnum.

Ruglaðar hænumömmur
Hænur eru ekki mjög skynsamar skepnur og það kemur oft fyrir að hæna sem búin að að liggja samviskusamlega á eggjum sínum dögum eða vikum saman ruglast á varpkössum ef hún þarf að skreppa frá. Ef hænan finnur egg í örðum varpkössum gæti hún átt það til að villast og leggjast á nýorpnu eggin og gleyma sínum. Þarmeð er öll fyrirhöfnin til einskis og fóstrin í eggjunum deyja.

Ef þið getið ekki einangrað hænu sem liggur á eggjum er áríðandi að tína egg úr öðrum varpkössum strax, svo hin verðandi móðir villist ekki á nýju eggin.

Vinkonur og uppáhaldshænur
Hænur velja sér stundum "vinkonur" úr hænsnahópnum og sumar hænur halda sig saman alla ævi. Oft eru það 2-3 ungar úr sama klaki sem halda hópinn, en það kemur fyrir að hænur á ólíkum aldri velji félagsskap hvor annarrar um langan eða skamman tíma. Hanar eiga sér oft "uppáhaldshænu" sem er eins konar fyrsta frú í hópnum og það fer frekar eftir skapferli hænunnar en aldri hvaða hænu hann velur.

Leikföng í hænsnakofann
Ef einelti byrjar í hænsnakofanum er gott ráð að hengja upp eitthvert dót sem dinglar í bakhæð hænsnanna. Efnið skiptir ekki máli, en hljóð er til bóta. Gömul barnaleikföng, s.s. hringlur henta vel sem hænsnaleikföng.

Rautt ljós við árásum
Ef hæna særist svo blæðir snúast aðrar hænur gegn henni. Blóðliturinn espar þær og sé ekki brugðist við geta hinar hænurnar gert útaf við hana á skömmum tíma. Við þessu er til einfalt ráð,- rauð pera. Það þarf ekki að nota hitaperu, rauð jólaseríupera eða venjuleg rauðmáluð ljósapera dugar. Séu hænurnar utanhúss er eina ráðið að taka hænuna úr hópnum og setja hana ekki með hinum fyrr en sárið er vel gróið og vona það besta með framhaldið.

Sprautunálar
Sprautunálar henta vel til að tæma egg. Stingið nálinni fyrst í báða enda eggsins og nógu djúpt til að gata rauðuna. Notið síðan nálina til að draga innvolsið úr egginu eða blásið úr því á venjulegan hátt.

Kattasandur undir prikið
Til að spara erfiðið við þrif og koma í veg fyrir ammoníakslykt í hænsnahúsinu er best að setja ramma með hænsnaneti undir prikið því þar skíta hænurnar mest.Undir netið er sáldrað sandi eða sagi og albest er að nota kattasand, því hann dregur mjög vel í sig rakann og vinnur gegn lyktinni. Þetta er ekki eins dýrt og maður gæti ætlað, því raka má ofan af sandinum nokkrum sinnum og bæta örlítið á hann áður en skipt er um.

Hæna í poka
Hvað er til ráða þegar hænurnar vilja liggja á en eigandinn vill ekki leyfa það? Það getur skapast mikil togstreita milli hænu og eiganda þegar þessi staða kemur upp. Hænurnar eru afar þrjóskar og jafnvel þótt hænan sé rekin út úr hænsnakofanum með harðri hendi gefst hún ekki upp. Hún verpir þá bara úti og liggur á þar! Eina ráðið er að skipta svo rækilega um umhverfi að hún geti einfaldlega ekki legið á. Nokkir hænsnaeigendur hafa tjáð okkur að það eina sem dugi almennilega við þessari áráttu sé að setja hænuna í léreftspoka og hengja upp á snaga í sólarhring. Þetta dugi alveg ágætlega og viðkomandi hæna sé búin að steingleyma útunguninni þegar hún sleppur úr prísundinni. Pokavistin gerir hænunni ekkert illt og þær eru nákvæmlega jafnhressar eftir vistina og fyrir hana.

Jóhanna Harðardóttir

Hreinlæti í kofanum

Hreinlætið skiptir miklu máli í hænsnahaldinu.

Sé hreinlætis gætt verða hænurnar fallegri í fiðri og þrífast betur, öll umhirða verður skemmtilegri og hætta á sjúdómum minnkar til muna. Það er einfaldast að koma sér upp hreinlætissiðum sem gera umhirðuna auðvelda, suma hluti þarf að framkvæma daglega en öðrum nægir að sinna sjaldnar. Hér er góður listi yfir reglubundin verk.
Daglega:
Gæta að fóðri og vatni og bæta á ef þarf, hreinsa dallana eftir þörfum. Líta yfir hænsnahópinn og athuga hvort nokkur merki séu um meiðsl eða sjúkdóma. Þeir sem líta reglulega yfir hópinn sinn eru fljótir að sjá ef eitthvað amar að einstöku dýri og þá er gott að taka það útúr hópnum til að sjá hvort um eitthvað alvarlegt er að ræða.
Vikulega:
Hreinsa varpkassa og bæta í þá undirlagi ef þarf.
Hreinsa út skít og skipta um undirlag á gólfi eftir þörfum. Það er alltaf gott að strá hreinu sagi yfir gólfin reglulega, því sagið er bakteríudrepandi.
Mánaðarlega:
Þvo hurðarhúna og annað sem þið snertið með sótthreinsandi efni. Þvo og sótthreinsa vatnsdalla a.m.k. einu sinni í mánuði.

Jóhanna Harðardóttir

Handleikum hænurnar

Flest dýr eiga það sameiginlegt að vilja ekki láta fanga sig og halda sér föstum. Það eru eðlileg viðbrögð dýrs sem ekki hefur kynnst manninum og lært að treysta honum eða vingast við hann.
Besta leiðin til að geta handfjatlað fullorðin hænsn er að venja unga strax við nærveru mannsins og mannshöndina. Hænur og hanar sem hafa verið handfjötluð frá því þau komu úr eggi forðast ekki manninn og hægt er að halda á þeim og skoða þegar þarf.
Við skulum því byrja strax á að handfjatla hænsnin okkar.

Varlega í byrjun

Nýklaktir ungar eru ósköp smábeinóttir og veiklulegir og þá þarf að handleika varlega. Sérstaklega er hætta á að þeir fari úr hálslið ef gripið er um hausinn á þeim. Róið ungana áður en þið takið þá úr ungakassanum, flautið lágt og talið rólega við þá áður en höndin er sett í kassann.
Ungar flögra mikið þegar þeir verða skelkaðir og þessvegna er betra að hafa gott tak á þeim áður en þeim er lyft og þeir fluttir milli staða. Best er að grípa utan um allan búkinn og halda þannig vængjunum saman, en láta leggina lafa í lausu lofti. Þannig hafa þeir hvorki stuðning til að hoppa af stað, né vængina tiltæka til flugs og eru þessvegna öruggir. Þessi aðferð er mjög góð til að halda á fuglunum á meðan þeir eru nógu litlir til að passa í lófann. Þegarungarnir eru orðnir rólegir í hendi má smám saman venja þá á að vera lausa hjá manninum, - þó svo nálægt að auðvelt sé að grípa þá og að þeir venjist því að vera gripnir.

Öruggt grip

Við eldri unga/kjúklinga þarft meira aðhald og báðar hendur. Best er að renna höndinni beint undir bringu fuglsins og lyfta honum þannig upp. Gott er að krækja fingrunum utan um leggina f. ofan hné/lærin þannig að fuglinn nái ekki fótfestu. Ef fuglinn hefur ekki fótfestu er hann sallarólegur og sé hausnum á fuglinum stungið undir upphandlegginn er auðvelt að skoða hann og handfjatla hvaða hluta sem er án þess að fuglinn geri athugasemdir við það.
Sumir eigendur verða smeykir við stóra og sterklega hana og þora ekki að handfjalta þá eða lyfta þeim. Öryggi eigandans skiptir máli og þessvegna er nauðsynlegt fyrir báða að eigandinn sé rólegur og nálgist hanann af öryggi. Efhanar eru vanir manninum frá því þeir koma í heiminn verður slíkt aldrei vandamál. Þeir vilja að sjálfsögðu ekki láta hefta sig, en það er auðvelt að ná þeim af priki ef þeir eru mannvanir. Einfaldasta leiðin er að grípa þá meðan þeir sitja á prikinu eða vappa á gólfi hænsnakofans. Best er að grípa um báðar lappir í einu (helst með annarri hendi) og svipta hananum upp og ná þannig að setja höndina undir bringu hans eða utan um búkinn. Hanar reyna yfirleitt að brjótast um þegar þeir finna að búið að er svipta þá frelsinu, en hætta því strax þegar búið er að leggja vængina upp að búknum og verða hinir rólegustu.

Hænsnaveiðar

Það getur verið snúið að ná lausum fugli og best að nota tækifærið þegar þeir eru sestir upp á prik að kvöldi. Ef fuglarnir eru vanir því að komið sé inn í kofann sitja þeir sem fastast þótt eigandinn sé "í veiðihug". Takið eins einn fugl í einu og bíðið þangað til hópurinn er orðinn rólegur áður en næsti er gripinn ef taka á fleiri en einn fugl. Ef á að taka hana er best er að taka hann síðast því hann mun að líkindum láta hæst og koma róti á hænurnar.
Lausir fuglar eru afar erfiðir viðureignar og varla eins manns verk að fanga þá. Eina leiðin er að lokka þá með mat og reyna að króa þá af, helst í horni þar sem þeir komast ekki undan. Tveir menn með sitthvort teppið eða netið geta með góðri samvinnu og þolinmæði náð þeim við slíkar aðstæður. Ef dökku og mátulega þykku teppi er hent yfir fuglinn grúfir hann sig í myrkrinu og þannig er einfalt að ná honum.
Því meira sem fuglunum er sinnt, þess auðveldara verður að handfjatla þá og fylgjast með heilsu þeirra.

Jóhanna Harðardóttir

Ódýrt fóður

Góð nýting, góð egg, góð heilsa og góð samviska
Hænurnar eru ekki dýrar á fóðrum og gefa af sér dásamleg nýorpin egg til heimilisins, full af dýrmætum næringarefnum. Þeir sem halda hænur geta haft góða samvisku gagnvart náttúrunni. Nýting á heimilismatnum verður mjög góð ef hænum eru gefnir afgangar, hænsaskíturinn er einhver besti áburður sem hægt er að fá og hænsnahald er því hin fullkomna endurnýting.

Af borði húsbændanna
Það eru forréttindi að geta breytt afgöngum af borði húsbændanna í bragðgóð egg og afgangar eru oft það besta sem hænurnar fá.
Allt hrátt grænmeti ásamt afskurði og skrælingi er góðgæti fyrir hænurnar. Ef grænmetið er saxað hverfur hver einasta arða ofan í þær, en hænurnar venjast því einnig að gogga grænmetið í sundur og nýta sæmilega þótt því sé hent fyrir þær í heilu lagi. Brauð, grautar, smátt saxað kjöt (sumir gefa jafnvel fisk) og storknuð fita er vinsæll hænsnamatur og þeir sem eiga gömul egg ættu að sjóða þau og hakka með skurni og blanda samanvið annan afgang. Ávextir ganga misvel ofan í hænur, en alls konar ber, melónur (nema ysta lag hýðisins), perur og epli eru vinsælt fóður og sumar hænur éta banana. Sítrusávexti, s.s. appelsínur og sítrónur ætti ekki að gefa hænsnum, þeir geta valdið niðurgangi og þarmabólgum.
Steina og fræ úr öllum ávöxtum og grænmeti er tilvalið að gefa hænsnum. Alls kyns korn og grjón (þ.m.t. maís og hrísgrjón) er hið ágætasta hænsnafóður, jafnt hrátt sem soðið.
Baunir á að bleyta upp og betra er að sjóða þær ef hænsnum eru gefnar þær í miklum mæli. Lauk ætti ekki að gefa hænum, sterkur laukur gefur laukbragð í eggin. Varist að gefa hænunum skemmdan mat. Mygla getur valdið veikindum og þránaðar hnetur geta t.d. verið hænsnum hættulegar.

Vinnslan á afgöngum og fleiru
Margir hænsnaeigendur gera samkomulag við nágranna og vini og hirða afganga frá fleiri heimilum og gauka þess í stað eggjum að viðkomandi annað veifið.
Hægt er að gefa hænunum matarafgangana saxaða úr matvinnsluvél eða skorna í litla bita. Afgangana má einnig mauka, hræra saman við grauta eða þvíumlíkt og hella í skál eða dall. Margir hafa þann sið að gefa afganga aðeins utan dyra. Gefið þá aðeins það magn sem hænurnar torga svo þeir laði ekki að mýs eða aðra óvelkomna keppinauta um fóðrið. Ef gefa á afgangana í hænsnakofanum er ágætt að halda þeim í sér fóðurskálum þar sem þeir geta valdið súrnun ef þeir komast í snertingu við fóðurkornið.

Úti í náttúrunni
Í náttúrunni er margt sem hægt er að nýta sem hænsnafóður. Lausagönguhænsn rata sjálf á góðgætið; það vinsælasta eru skordýr, haugarfi, hjartaarfi, nýsprottnar grasnálar, ax af stráum og því miður blómknúppar sumra rósa og skrautblóma! Sumir hænsnabændur safna njóla með fræjum, hvönn, arfa og stráum með axi til að bera fyrir hænurnar og uppskera bragðgóð egg fyrir. Þá er tilvalið að hirða afskurð af öllu káli og rótarávöxtum þar sem aðgangur er að slíku. Þeir sem búa við sjóinn safna stundum þara og margar hænur eru gráðugar í hann.

Jóhanna Harðardóttir

Varist ruslfæði

Lausagöngufuglar eru svo heppnir að geta gætt sér á ýmsum kræsingum sem búrfuglar geta ekki. 
Feitar og pattaralegar flugur, safaríkur arfi og jafnvel nýsprottin sumarblóm fara vel í maga og gefa hrausta fugla og bragðgóð egg.
Flestir eigendur landnámshænsna eru mjög vistvænir og nýta alla afganga sem falla til í hænurnar og í allflestum tilfellum er það til gagnkvæmrar gleði. Hænurnar hafa undantekningarlítið gott af matarafgöngum heimilisins og þær hafa mjög gaman af að róta í þeim og velja sér bestu bitana, jafnvel þótt það kosti stundum hnippingar, garg og kapphlaup.
En það má þó ekki gefa fuglunum hvað sem er.

Í einstaka tilfellum hafa fuglar veikst og jafnvel drepist af skemmdu fóðri og sjaldnast grunar eigendurna hver ástæðan er þegar slíkt gerist. Koma má í veg fyrir slík slys með því að þekkja hvaða efni það eru sem geta reynst fuglunum hættuleg og hvar þau er að finna.

Salt og ungfuglar
Fuglarnir þurfa á salti að halda til að þrífast, en hóf er best í öllu. Fullorðnir fuglar þola talsvert magn af salti í skamman tíma (allt að 20% heildarfóðurs) ef aðgangur að hreinu vatni er góður og fuglarnir heilbrigðir. Ungfuglar þola salt ekki eins vel og fullorðin hænsn en veikjast þó sjaldan ef vatn er nægjanlegt. Ungar eru mjög viðkvæmir fyrir salti.
Ungar í vexti geta orðið alvarlega veikir og sumir jafnvel drepist ef saltmagn í fóðri fer yfir 5%. Ef saltið er sett í vatn, getur 0.9% upplausn drepið allt að 100% unganna. 
Einkenni salteitrunnar í hænsnum er mikill þorsti í byrjun, síðan niðurgangur og í sumum tilfellum lömun í fótum. Fuglarnir geta einnig fengið krampa rétt áður en þeir drepast.
Ef fóðrið hjá fullorðnum hænum er of salt missa þær venjulega lystina og hætta í kjölfarið að verpa. 
Mygla
Í mygluðum matvælum geta leynst eiturefni sem hafa áhrif á allar lifandi verur. Mycotoxineitur sem myndast í myglu getur valdið alvarlegum veikindum og dauða í hænsnum. Hnetur geta oft myndað eitur þegar þær mygla og slíkt eitur getur einnig kviknað í öðrum fóðurvörum. Sérstaklega þarf að gæta sín á gömlum hnetum og fuglafóðri, en oft má finna á lyktinni hvort þrái eða mygla eru komin í þessar vörur. Fuglar sem veikjast vegna myglueitrunnar geta dáið mjög snögglega án þess að vart verði nokkurra einkenna og það er algengt að um 10-20% hænsna sem komast í myglueitur drepist og ungar  hænur sem veikjast verða yfirleitt vesælar til dauðadags. Endur eru mun veikari fyrir þessu eitri og meðal þeirra getur hlutfall fugla sem drepst farið yfir 80%.
Rotin matvæli
Rotin matvæli valda oft veikindum í fuglum. Eitrunin verður vegna baktería sem veldur nokkurs konar lömun þegar hún kemst á hátt stig. Þessi eitrun finnst bæði í kjöti og grænmeti, en oftast veikjast hænsni vegna rotins grænmetis sem þeim er gefið. 
Fyrstu einkenni koma fram eftir nokkra klukkutíma og lýsa sér í að fuglarnir missa máttinn, verða syfjaðir og veiklulegir og missa matarlyst. Stundum ná fuglarnir sér af þessu stigi, sem getur þó varað í nokkra daga. 
Veikist fuglarnir alvarlega verða þeir alveg máttlausir (háls, fætur og vængir) og eiga erfitt um andardrátt, en eftir að einkennin eru komin á þetta stig er dauðinn vís.
Óhollar jurtir
Sem betur fer er ekki mikið af plöntum sem geta verið hættulegar hænsnum á Íslandi. 
Fyrst ber að minnast á algengustu tegund platna sem ekki má gefa hænum; spíraðar og/eða grænar kartöflur.
Þegar kartöflur eru farnar að spíra eða verða grænar myndast í þeim efni sem heitir Solanin. Þessu eitri má eyða með því að sjóða kartöfluna í vatni, og skal hella vatninu. 
Hörfræ geta verið varasöm hænsnum ef þau komast í raka. Þurrt er hörfræið ekki hættulegt svo fremi að það sé aldrei meira en 3% af fóðrinu.
Súrt mjöl
Ef mjöl súrnar getur það orðið hættulegt fuglum. Í því myndast candida sveppur sem gerir fuglana veika og getur í verstu tilfellum dregið þá til dauða (sérstaklega kalkúna). Hænsnin missa lystina og fá mikinn niðurgang (stundum blóðugan) og hættan á dauða er mest ef fuglinn ofþornar vegna vökvataps. Endaþarmurinn bólgnar og verður eilítið sporöskjulagaður og því fylgir mjög vond lykt. Það er erfitt að lækna bólgurnar nema með lyfjum.
Löng strá og fjaðrir
Fjaðrir og löng strá geta valdið stíflum í meltingarvegi hænsna. Sérstaklega eru ungar og ungfuglar viðkvæmir fyrir þessu og full ástæða til að gæta þess að gólfið í hænsnakofanum sé laust við þess háttar þar sem ungir fuglar eru hafðir.
Eldri fuglar losa sig auðveldlega við strá og fjaðrir, en í ungfuglum getur þetta safnast í meltingarveginn og valdið bólgum og sárum. Ef grunur leikur á meltingarstíflu má reyna að sprauta u.þ.b. teskeið af matarolíu upp í fuglinn en það kemur stundum meltingunni aftur af stað. 

Jóhanna Harðardóttir - (byggt á grein úr Practical Poultry)

 

Seljum eggin okkar

Eggin úr hænum sem fá að ganga frjálsar úti og tína upp í sig gróður, skordýr og fleira góðgæti eru sannarlega miklu betri en úr hænum sem eingöngu nærast á tilbúnu fóðri.  Þau eru einnig miklu hollari. Egg frjálsra landnámshænsna hafa fengið orð fyrir að vera einstaklega bragðmikil og góð.
Skilyrðin fyrir þátttöku í sölukeðju ERL eru þessi:
1.    að vera með hreinræktaðar landnámshænur
2.    að vera félagi í Eigenda- og ræktendafélagi landnámshænsna
3.    að hænurnar gangi lausar þegar veður leyfir
4.    að varpkössum sé  haldið hreinum og snyrtilegum
5.   að egg hænsnanna séu helst tekin úr varpkössum tvisvar á dag (að morgni og kvöldi) en að minnsta kosti daglega.
6.   að eggin séu geymd í kæli frá því að þau eru tekin úr varpkassanum og þar til að þau fara á markað.
Hver og einn hænsnaeigendi er ábyrgur fyrir sinni framleiðslu. Allir þeir sem taka þátt í þessu átaki geta fengið eggjabakka sem merktur er sérstaklega með nafni búsins eða eigandans og eyðu fyrir dagsetningu síðasta söludags. 
Ætlast er til að eggin séu ekki dagsett lengra en mánuð fram í tímann og alltaf geymd á köldum stað.
Egg úr frjálsum landnámshænum eru gæðavara og verð þeirra ætti aldrei að vera lægra en verð á eggjum annarra eggjaframleiðanda. 

Jóhanna Harðardóttir

Knúið áfram af 123.is