Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna

Félagið

Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna 

ERL  var stofnað í nóvember 2003. Helsti hvatamaður þess var Jóhanna G. Harðardóttir og vann hún ötullega að stofnun þess í langan tíma með dyggri aðstoð Ólafs R. Dýrmundssonar sem var á þeim tíma ráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands. Á stofnfundinum voru 3 konur kosnar í stjórn félagsins, þær Jóhanna G. Harðardóttir sem var kosin formaður og gengdi þeirri stöðu til margra ára, Valgerður Auðunsdóttir  sem var kosin gjaldkeri og er enn og Kolbrún Júlíusdóttir sem var kosin ritari.

Markmið félagsins eru að halda landnámshænsnastofninum hreinum, heilbrigðum og litfögrum, að stuðla að fræðslu fyrir eigendur og ræktendur landnámshænsna og að afla henni vinsælda meðal landsmanna.

Félagið gefur út myndarlegt ársrit, heldur fjölda sýninga, dreifir upplýsingum og fræðslu til félaganna, býður upp á námskeið um aðbúnað og ræktun landnámshænsna og heldur úti þessari vefsíðu þar sem félagar geta aflað sér þekkingar.

Á þeim árum sem félagið hefur starfað hefur náðst ótrúlegur árangur. Landnámshænan er nú þekkt innanlands sem -utan og áhugi á ræktun hennar hefur aldrei verið meiri.

Sýningar félagsins og blaðið Landnámshænan njóta talsverðra vinsælda meðal áhugafólks um fugla og félagar ERL eru nú komnir vel á fjórða hundrað.

Síðan félagið var stofnað hafa margir lagt hönd á plóginn og stjórn og varastjórn verið vakin og sofin í að vinna landnámshænunni vel. Félagarnir hafa verið duglegir að sýna fugla og hafa samband, en á því veltur einmitt hvernig ræktunarstarfið tekst til.

Blaðið

Strax fyrsta árið var ákveðið að gefa út blað um landnámshænuna til að vekja áhuga almennings og styðja við ræktendur hennar. Jóhanna G. Harðardóttir formaður félagsins hefur átt heiðurinn af ritun og útgáfu blaðsins með dyggri aðstoð Valgerðar Auðunsdóttur sem séð hefur um söfnun auglýsinga, Júlíusar Baldurssonar sem skrifað hefur ásamt Jóhönnu í blaðið og Ragnars Sigurjónssonar sem átt hefur margar myndir í blaðinu. Öll hafa þau unnið launalaust að gerð blaðsins sem og öðru varðandi félagsstarfið. Blaðið Landnámshænan hefur fengið feikilega góðar viðtökur meðal áhugafólks um hænur og í kjölfar útkomu þess hvert ár bætist fjöldi félaga í ERL.

Sýningar og búr

Eitt af fyrstu verkefnum stjórnar var að ráðast í kaup á sýningarbúrum frá Bretlandi og efna til vandaðra sýninga á landnámshænum. Meðal sýningarstaða á undanförnum árum eru Reykjavík, Akureyri, Ólafsvík, Hella og Sauðárkrókur auk fleiri staða þar sem farið hafa fram minni sýningar. Talsverð vinna liggur í undirbúningi og yfirsetu á sýningum og vill stjórn ERL þakka öllum þeim sem komið hafa að sýningum félagsins gegnum árin.

Fræðsla

Mikið fræðslustarf hefur verið unnið af stjórnarmönnum ERL og enginn talið eftir sér símtöl og bréfaskriftir til hjálpar félagsmönnum og öðrum hænsnaeigendum í vanda. Félagsblaðið er stútfullt af góðum upplýsingum, vefurinn hefur nú bæst við og áfram verða félagarnir allir af vilja gerðir að leysa hvers annars vanda jafnt á netinu sem á símalínunni.

Stjórnin samþykkti árið 2007 að gangast fyrir gerð námsefnis sem gagnast gæti við námskeiðahald á mismunandi skólastigum. Jóhanna G. Harðardóttir og Júlíus Baldursson tóku að sér gerð námsefnisins og hefur þegar verið  haldið námskeið fyrir áhugafólk að Hvanneyri og verður vonandi framhald þar á.

Útlit og atferli

Á aðalfundi Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna ERL 2011 var samþykkt samhljóða að skipa fimm manna nefnd til að semja tillögu að lýsingu á landnámshænunni. Nefndin sem starfaði sumarið 2012, hafði að leiðarljósi einkenni þeirra hænsna sem dr. Stefán Aðalsteinsson byggði upp í húsakynnum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á Keldnaholti í Reykjavík fyrir nær 40 árum og auk þess var rætt við fjölmarga sem þekkja til þessa stofns. Þá var aflað ýmissa upplýsinga erlendis frá, m.a. frá Norræna genabankanum, varðandi ákveðin einkenni í skyldum og óskyldum hænsnakynjum. Niðurstöður nefndarinnar voru kynntar félögum ERL og eftir umræður og minni háttar breytingar á þeim niðurstöðum var lýsingin samþykkt samhljóða á aðalfundi 2012 og kynnt rækilega, svo sem á vef- og fésbókarsíðum, í tölvupósti til ræktenda eftir föngum, og í fjölmiðlum.

Í rökréttu framhaldi af fyrri aðgerðum var lögð fram tillaga á aðalfundi 2013 um að ERL komi upp skrá yfir viðurkennda ræktendur landnámshænsna, samkvæmt gildandi reglum um útlits- og atferliseinkenni. Fundur þessi var óvenju fjölmennur, enda verið að halda upp á 10 ára afmæli félagsins, og kom fram í líflegum umræðum nær einróma álit á því að brýnt væri að koma betri reglu á ræktunarmálin. Var tillagan samþykkt óbreytt með öllum greiddum atkvæðum. Lista yfir vottaða ræktendur landnámshænsna má finna undir hnappnum "Landnámshænan" hér á heimasíðunni. Þar gefur að líta einstaklinga sem beðið hafa um úttekt á sínum fuglum af hálfu ERL og staðist skoðun í samanburði við viðurkenndan útlitsstaðal félagsins, þá lýsingu á landnámshænunni sem fjallað var um hér að ofan.

Eigenda- og ræktendafélag Landnámshænsna  
Húsatóftum I, Skeiðum 801 Selfoss

Gerstu félagi og styddu við bakið á landnámshænunni

Árgjaldið er aðeins 2500 krónur.
Reikn: 0325 - 13 - 100359.  Kt: 5408060470

Þeir sem greiða gjaldið teljast félagar Í ERL.   

Fyrir útlönd :
IBAN: IS24 0325 1300 100359 54080604 70
bankaccount: 0325 - 13 - 100359 

Knúið áfram af 123.is