Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna

Eldra efni/Fróðlegar greinar

Landnámshænuvinir

Ræðismaðurinn
Við sem eigum og þekkjum landnámshænurnar eigum að nota hvert tækifæri sem gefst til að tala um þær og benda öðrum á nauðsyn þess að þær lifi áfram sem grunnhænsnastofn landsins. Hér eru nokkur atriði til að benda á:
1.    Þær eru ekki aðeins fallegar og skemmtilegar, heldur eru þær náttúrulegar og duglegar.
2.    Þær eru einstakar, hver hæna hefur sitt einstaka útlit og persónuleika.
3.    Helstu sameiginlegu einkenni hænanna eru þessi,- þær eru rólegar, forvitnar, mannelskar og hraustar og þarfnast ekki mikillar umhirðu ef miðað er við aðrar (erlendar) tegundir haughænsna.
4.    Þær eru mjög duglegar að verpa og frá þeim er hægt að ná mjög svipuðu varpi og innfluttum hænum sem lifa við allt aðrar og verri aðstæður. 
5.    Rauðan í eggjum þeirra er dekkri en í "verksmiðjueggjum" og þau eru með sanni bragðbetri.
6.    Þær unga sjálfar út ef þær hafa tækifæri til þess og passa unga sína vel.
7.    Landnámshænan er dugleg að leita sér að fæði og er því bæði sjálfstæð og sjálfbjarga. Hún þolir veður ótrúlega vel og er mikið úti sem gerir hana heilbrigðari en búrhænur og mótstöðuaflið meira.
Neytandinn
Til þess að styðja við ræktun Landnámshænsna er nauðsynlegt að eggin úr hænunum hafi þann sess sem þau eiga skilið. Það eru margar ástæður fyrir því að neytandinn ætti frekar að velja egg úr landnámshænum, með því að velja þau stuðlar hann að:
1.    Þessi gamli og sjálfræktaði stofn heldur velli og verður til staðar ef framræktaðir búrfuglar falla úr smitsjúkdómum.
2.    Eggin eru bragðgóð og falleg og kosta lítið meira (í sumum tilfellum það sama) og önnur egg.
3.    Eggin eru í allflestum tilfellum úr frjálsum fuglum í útigöngu.
4.    Því meira sem keypt er af landnámshænueggjum, þess færri framleiðslufugla þarf til að metta markaðinn. Eggjaframleiðsluhænur í stórum eggjabúum lifa ömurlegu og mjög stuttu lífi, því stefnan er að hver  hæna framleiði sem flest egg, sem hraðast og ódýrast.
Spyrjið um landnámshænuegg í verslunum, bendið öðrum á hvar þau er að finna og veljið þau framyfir önnur egg. 
Fræðarinn
Og svo er um að gera að fræða alla um hænsnahald.
Það má gjarna fræða fólk á því að hægt sé að fá egg úr frjálsum landnámshænum í áskrift víðast hvar um landið (sjá m.a. undir tenglar á www.haena.is). 
Það má einnig fræða fólk á því að þessi egg séu yfirleitt lítið dýrari en önnur egg (sem er ótrúlegt), en með því að kaupa þau fær fólk betri egg og bætir líf fjölda dýra. 
Það má líka fræða fólk um það hvernig hænsnahaldi í landinu er háttað. Í flestum stærri eggjabúum landsins er nokkrum hænum troðið inn í hvert varpbúr. Þessar hænur koma aldrei út undir bert loft og eru aðeins fóðraðar á tilbúnu varpfóðri alla æfi. Hænurnar eru aðeins látnar lifa meðan þær eru í þéttustu varpi, sem er u.þ.b. ár, síðan er þeim slátrað.  Okkur hafa borist til eyrna ljótar sögur um meðferð hænsna sem eru um það bil að hætta varpi, sögur sem eru of óhugnanlegar til að birta án sönnunargagna. 
Með því að kaupa Landnámshænuegg stuðlar fólk að fækkun búrhænsna, en leggur grunn að skipulegri ræktun hennar. Landnámshænur lifa nær allar við lausagöngu og fá að leita sér að gróðri, skordýrum og öðru góðgæti náttúrunnar þegar þannig viðrar, - og eru hamingjusamar!

Jóhanna Harðardóttir

Fyrstu niðurstöður DNA rannsóknar

Loks getum við birt einhver svör til þeirra sem hafa beðið í ofvæni eftir niðurstöðum DNA rannsókna á landnámshænunni. Hér kemur stutt grein eftir Jón Hallstein Hallsson, erfðafræðing þar sem hann gerir grein fyrir fyrstu niðurstöðunum. Því niður tókst ekk að setja inn myndirnar en vonandi skila þær ser fljótlega...

Fyrstu niðurstöður erfðarannsóknar á íslenska hænsnastofninum

Erfðaauðlindir fara óðum þverrandi og rannsóknir undanfarinna ára sýna að helstu stofnar húsdýra eru margir úr sér gengnir hvað varðar erfðafjölbreytileika. Um er að ræða varhugaverða þróun (1,2) sem íslenski hænsnastofninn hefur ekki farið varhluta af en hann telur í dag aðeins um 3000-4000 fugla. Rannsóknir sem fram hafa farið á íslensku búfé hafa undirstrikað sérstöðu íslensku stofnanna og sýnt að þeir geta geymt áhugaverðan breytileika þrátt fyrir takmarkaða stofnstærð (3,4) og má því vel vera að íslenski hænsnastofninn geti orðið uppspretta einstakra genasamsæta sem nýta megi við kynbætur.

Árið 2006 hóf MATÍS prófanir á erfðamörkum á sýnum úr íslenska hænsnastofninum og í framhaldinu hófst samstarf MATÍS og Landbúnaðarháskóla Íslands með það að markmiði að greina stofn íslensku landnámshænunnar með tilliti til erfðafjölbreytileika og stofngerðar. Íslenskir hænsnaræktendur brugðust sérstaklega vel við og söfnuðust mun fleiri sýni en reyndist unnt að greina í fyrstu atrennu. Niðurstöður verða hér aðeins kynntar að litlum hluta en þeim eru gerð ítarlegri skil í nýlegri BS ritgerð frá Landbúnaðaháskóla Íslands sem nálgast má á heimasíðu skólans.

Eitt af þeim atriðum sem mikilvægt er að hafa í huga þegar unnið er að verndaráætlun stofns er að stofngerð sé vel skilgreind svo tryggja megi að leyndir undirstofnar fái nauðsynlega athygli og tapist ekki óafvitandi. Með arfgerðargreiningu má bera kennsl á stofna af þessu tagi og benda niðurstöður arfgerðargreiningar til þess að slíkur stofn fyrirfinnist innan íslenska hænsnastofnsins. Á meðfylgjandi mynd, sem sýnir meginhlutagreiningu á erfðafjarlægð milli einstaklinga innan íslenska stofnsins, má sjá að nokkur sýni skera sig greinilega frá megin hluta sýnasafnsins. Þegar betur er að gáð koma öll nema eitt af þessum sýnum (grænt á Mynd 1A) frá einum og sama ræktandanum. Þegar stofnar í stað einstakra sýna eru greindir með þessum sama hætti sést að þessi hópur sker sig frá megin hópnum með skýrum hætti (Mynd 1B). Þetta bendir til þess að nauðsynlegt sé að huga að tveimur stofnum við gerð verndaráætlunar fyrir íslenska hænsnastofninn í stað eins áður.

Nýverið fékkst vilyrði frá Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar fyrir styrk til áframhaldi rannsókna á íslenska landnámshænsnastofninum og eru næstu skref meðal annars þau að afla fleiri sýna af fuglum sem telja má að tilheyri áður nefndum undirstofni auk þess að afla fleiri sýna úr erlendum stofnum til samanburðar við íslensku sýnin.

Jón Hallsteinn Hallsson (jonhal@lbhi.is). Erfðafræðingur við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Heimildaskrá:

1.       Meuwissen T. Genetic management of small populations: A review. Acta Agriculturae Scandinavica Section a-Animal Science. 2009;59(2):71-79.

2.       Muir WM, Wong GKS, Zhang Y, Wang J, Groenen MAM, Crooijmans RPMA, et al. Genome-wide assessment of worldwide chicken SNP genetic diversity indicates significant absence of rare alleles in commercial breeds. Proceedings of the National Academy of Sciences of the United States of America. 2008;105(45):17312-17317.

3.       Kantanen J, Olsaker I, Holm LE, Lien S, Vilkki J, Brusgaard K, et al. Genetic diversity and population structure of 20 North European cattle breeds. Journal of Heredity. 2000;91(6):446-457.

4.       Tapio M, Tapio I, Grislis Z, Holm LE, Jeppsson S, Kantanen J, et al. Native breeds demonstrate high contributions to the molecular variation in northern European sheep. Molecular Ecology. 2005;14(13):3951-3963.

 

Jóhanna Harðardóttir

 

Blendingar - ógn við stofninn

Nokkuð hefur borið á því að nýir félagar leita ráða hjá félaginu vegna hænsna sem þeir hafa ýmist keypt eða fengið gefins og reynast ekki standa undir væntingum.

Í nokkrum tilvikum hafa þessi hænsni komið frá stöðum þar sem haldnar eru fleiri en ein tegund hænsna og þau látin ganga saman.

Hænsnfuglar af ólíkum tegundum para sig saman og geta getið af sér afkvæmi sem sum bera nánast öll einkenni annarrar tegundarinnar. Þessir fuglar eru þó mikil ógn við báða stofnana, þar sem blöndunin getur leitt til þess að einkennin komi fram í afkomendum þeirra síðar. Það er því mikil ógn við stofninn að blanda saman tveim tegundum fugla.

Stjórn félagsins hefur ekkert við það að athuga, að eigendur landnámshænsna eigi allar þær tegundir hænsna sem þeir komast yfir,- svo fremi að þeir láti ekki hænsnin ganga saman og dreifi síðan frjóum eggjum eða ungum til annarra. Skiptir þá engu máli þótt þeim sé dreift með því fororði að hænsnin séu blendingar. Slíkt ábyrgðarleysi getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir stofn íslensku landnámshænunnar og er engum hænsnaræktanda samboðin.

Til þess að forða fólki frá að glepjast á blendingshænsnum má benda á eftirfarandi:

Skoðið aðstæður

Þegar fólk ætlar að fá sér landnámshænur eða bæta við í flokkinn sinn er ráðlegt að kanna aðstæður hjá þeim sem láta hænurnar frá sér.

Ef fleiri en ein tegund hænsna er á staðnum (landnámshænur, dverghænsni, þýskættaðar svartar hænur og e.t.v. aðrar) þarf að vera öruggt að hænsnin gangi ekki saman, hvorki inni né úti.

Það skal skýrt tekið fram að sumir eigendur margra tegunda eru afar ábyrgir, girða tegundirnar af og hafa fulla stjórn á ræktinni. Sé svo, er allt í lagi að kaupa af þeim egg eða unga til undaneldis.

Einkenni blendinga

Erfitt getur verið að sjá hvort um blendinga sé að ræða og oft er illt að greina það fyrr en hænsnin eru fullþroskuð og stundum sést það ekki fyrr en í næstu kynslóð. Þó eru ýmis einkenni sem má hafa til hliðsjónar við greininguna:

  1. Hópur fullþroska hænsna inniheldur misstórar hænur
  2. Ungarnir byrja seint að verpa og verpa lítið
  3. Egg sumra hæsnanna ófrjó
  4. Sumir blendingshanar ófrjóir
  5. Hænsnin eru fiðruð fram á tærnar (rjúpnafætur)
  6. Sum einkenni eru minna áberandi og illgreinanlegri s.s. slitrótt og ójafnt stél á svörtum  hænum, mjög frambyggðar og smágerðar hænur og hænsni með áberandi lítinn haus.

Sem betur fer tekur náttúran stundum fram fyrir "hendurnar" á hænunum þannig að blendingarnir fjölga sér síður en hreinræktaðar hænur, það er þó ekki algilt.

Ef einhver hefur minnsta grun um að hann  hafi fengið blendinga ætti hann EKKI að  halda þeim hænum innan flokksins, því slíkt kann að hafa alvarlegar afleiðingar gagnvart því mikla starfi sem nú hefur verið unnið til bjargar stofninum.

ERL mun með glöðu geði leiðbeina eigendum af bestu getu og hjálpa þeim sem vilja til að koma sér upp hreinræktuðum stofni landnámshænsna.

Jóhanna Harðardóttir

Einn stofn, margir ábyrgir ræktendur

 

Íslenska landnámshænan þarfnast enn verndar okkar

Tveir stórbrunar hafa orðið hjá ræktendum landnámshænunnar á síðustu árum, fyrst hjá Valgerði Auðunsdóttur á Húsatóftum þar em fórust rúmlega 100 hænsni og síðan hjá Júlíusi Baldurssyni á Tjörn þar sem um 200 hænur fórust. Þar sást vel hversu skjótt skipast veður í lofti og í einu vettfangi getur gengið stórlega á stofninn.

En það eru ekki einungis dramatískir stórbrunar sem ógna stofninum.

Minkur og aðrir óvættir hafa ásamt hnýslasótt á hverju ári drepið enn fleiri landnámshænur á landinu en brunar, þótt e.t.v. hafi ekki drepist jafn margar á hverjum stað í einu.

Enn ein ógnin við landnámshænuna eru síðan þeir "ræktendur" sem blanda öðrum hænsnategundum saman við stofninn, dreifa ungunum og hætta þannig stofninum.

Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna berst hetjulegri baráttu við að halda uppi áhuga á ræktun hænunnar og hefur orðið verulega ágengt, þökk sé fórnfúsu starfi fjölda fólks sem tekið hefur þátt í starfseminni frá stofnun félagsins.

Einn stofn

Oft hef ég heyrt talað um "stofninn frá X" eða  "stofninn frá Y"  í umfjöllun um landnámshænuna.

Ég vil í því tilefni minna eigendur og ræktendur landnámshænsna á að stofninn er aðeins einn og þannig á það einmitt að vera. Landnámshænsnastofninn telur í hæsta lagi um 3.500 fugla sem er rétt nægilegt til að geta ræktað fram sterkan og fjölbreytilegan stofn. Landnámshænsnastofninn er vel blandaður, þökk sé áhuga eigenda og ræktenda,  enginn einn ræktandi er með "sérstakan stofn" - sem betur fer. Undirstaða þess að halda landnámshænunum heilbrigðum og halda inni öllum einkennum þeirra, litadýrð og eiginleikum byggist á skynsamlegri blöndun einstaklinga og áhuga og hyggjuviti ræktendanna við að velja fallega og hrausta fugla til undaneldis. Til þess að halda landnámshænunni í rækt þurfum við að hjálpast að, vera vakandi fyrir eiginleikum hennar og vera dugleg að skiptast á fuglum til undaneldis.

Varla  gróðavegur

Ræktun landnámshænsna verður seint gróðavegur þó hún geti vel staðið undir sér. Það hefur sýnt sig bæði hérlendis og erlendis að ræktun lítilla fuglastofna verður að byggjast á áhuga fremur en gróðahyggju.

Þeir sem eiga fáeinar hænur þurfa að nýta eggin, selja þau eða skipta á umframeggjunum og öðrum verðmætum. Ef hænurnar verpa vel stendur þetta undir fóðurkostnaði hænsnanna. Kostnaði má halda í skefjum með skynsamlegum fóðrunarbúnaði þannig að sem minnst af fóðrinu fari til spillis. Einnig má spara með nýtingu á afgöngum og allt gerir þetta reksturinn hagkvæmari.

Stærri ræktendur selja egg allt árið og sumir þeirra selja einnig unga a.m.k. hluta ársins. Kostnaður við reksturinn og kaup og viðhald á útungunarvélum er talsverður og söluverð á ungum stóð lengi vel ekki undir kostnaði. Ungaverð hefur almennt hækkað undanfarið ár og ætti því að standa ágætlega undir kostnaði. Þegar eggjasala bætist við ræktina ætti þetta að standa undir hænsnahaldinu allt árið, en það er þó hætt við að launin verði aldrei há við hænsnaræktina.

Litlir ræktendur eru undirstaðan

Það er viðurkennd staðreynd að almennir eigendur og litlir ræktendur skipta mestu máli í ræktun lítilla stofna um víða veröld.

Eigendur sem halda fáeinar hænur fyrir sjálfa sig og ræktendur sem viðhalda fuglafjölda sínum og bæta kannski við fáeinum ungum á ári eru undirstaða ræktunnar landnámshænunnar eins og annarra gamalla hænsnastofna á Norðurlöndum. Ef enginn vildi eiga hænur væri til lítils að rækta þær. Ef litlir ræktendur væru ekki til væri erfitt að varðveita stofninn.

Kostir smábúskaparins

Litlir ræktendur sem passa upp á hreinleika stofnsins geyma dýrmæt erfðaefni hænsnanna sem hægt er að ganga að þegar áföll verða. Margir litlir ræktendur eru því öruggari genasjóður en einn stór.

Til litlu ræktendanna er hægt að sækja efni til að styrkja stofninn og koma þannig í veg fyrir að dýrin verði of skyld innbyrðis.

Litlir ræktendur bæta mjög gjarna inn í hópinn sinn frá öðrum stærri og viðhalda þannig blóðblöndun.

Litlir ræktendur hafa oft tækifæri til að fylgjast vel með hverjum einstökum unga og þroska hans.

Litlir ræktendur skila oft frá sér ungum sem koma úr litlum hópum (meðalstór ungahópur undir hænu eru 4-8 ungar) og eru því heilbrigðir, mannvanir og spakir.

Sumir litlir ræktendur leyfa hænunum að liggja á og unga út. Þannig framrækta þeir þennan dýrmæta eiginleika landnámshænunnar.

Kostir stærri búa fyrir ræktina

Hér á landi eru í raun engir sem flokkast undir mjög "stóra ræktendur" eins og gerist erlendis. Við erum svo heppin að hér eru aðeins "miðlungsstór" landnámshænsnabú þar sem verksmiðjuframleiðslan hefur ekki hafið innreið sína.

Þessi bú hafa þó verið nógu stór til þess að sjá markaðinum fyrir meginþorra unga á ári hverju og þannig tryggt fjölgun í stofninum mörg undanfarin ár.

Ánægjulegt er að vita til þess að fleiri meðalstórir ræktendur hafa bæst í hópinn undanfarið og vonandi á þeim eftir að ganga vel að rækta fram kosti hænunnar.

Samstarf skilar góðum árangri

Samstaða og samstarf félaga ERL hefur skilað feikilega góðum árangri á þeim sjö árum sem félagið hefur starfað.

Við þörfnumst þess öll að hafa stuðning hvers annars og það er landnámshænunni fyrir bestu að við vinnum eins mikið saman og við getum.

 

Höf. Jóhanna G. Harðardóttir

(grein sem birtist í Landnámshænunni 2010)

Eigenda- og ræktendafélag Landnámshænsna

Húsatóftum I, Skeiðum 801 Selfoss

Gerstu félagi og styddu við bakið á landnámshænunni

Árgjaldið er aðeins 2500 krónur.  

Reikn: 0325 - 13 - 100359.  Kt: 5408060470

Þeir sem greiða gjaldið teljast félagar Í ERL.  

Fyrir útlönd : 
IBAN: IS24 0325 1300 100359 54080604 70
bankaccount: 0325 - 13 - 100359 

Knúið áfram af 123.is