Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna

Velkomin  Fréttir

19.06.2018

Sumarsýning ERL

Sýning á landnámshænum á vegum ERL á Hvanneyrarhátíð fellur því miður niður (skrifað 5.07.2018). 

 

Sumarsýning Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna verður haldin á Hvanneyrarhátíð þann 7. júlí næstkomandi og hefst klukkan 13:30 og stendur til 17:00.

Hátiðin fer fram á Hvanneyri í Borgarfirði og er dagskrá mjög fjölbreytt.

Á fésbókarsíðu hátíðarinnar ("Hvanneyrarhátíð 7. júlí 2018") er stiklað á viðburðum dagsins:

100 ára afmæli dráttarvélarinnar á Íslandi í umsjón Fergusonfélagsins: Sýning á dráttarvélum - Útgáfa bókarinnar ,,Íslenskir heyskaparhættir" eftir Bjarna Guðmundsson - Laufey ísgerð mætir á svæðið með sinn margrómaða sveitaís - Kynning bókarinnar ,,Grasnytjar á Íslandi" eftir Guðrúnu Bjarnadóttur og Jóhann Óla Hilmarsson - Sýningin ,,Konur í landbúnaði í 100 ár" opnuð á lofti Halldórsfjóss - Reynir Hauksson, flamenco gítarleikari, spilar í Hvanneyrarkirkju - Sýning á íslenskum landnámshænum á vegum Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna - Leiðsögn um Yndisgarða - Fræðsla um býflugnarækt - Markaður með íslenskt handverk, matverk og hugvit í gömlu Íþróttahöllinni - Ferðir á heyvagni - Frí andlitsmálun fyrir börnin - Skemman kaffihús, Hvanneyri Pub og Kvenfélagið 19. júní verða með matsölu - Frítt í Landbúnaðarsafnið - Ullarselið og Bókaloftið opið

Félagið verður með hænur til sýnis í sýningarbúrum félagsins. Félagsmönnum er velkomið að taka þátt í sýningunni, koma með hænur eða veita aðstoð við sýninguna. Það er þó nauðsynlegt að gera boð á undan sér ef ætlunin er að taka þátt. Fjöldi fugla sem komast að á sýningunni er takmarkaður. Það er best að hafa samband við Valgerði gjaldkera ERL í síma 896-5736 eða senda póst á Magnús ritara ERL á netfangið m.ingimars@gmail.com

Stjórn ERL minnir á sýningarreglur félagsins og hvetur félagsmenn sem hyggjast taka þátt að kynna sér þær. Þeir fuglar sem koma á sýninguna verða að standast útlitsstaðal ERL fyrir Landnámshænuna. Sýningarstjóri skoðar alla fugla áður en sýning hefst.

Sýningarreglur félagsins má finna hér á heimasíðunni en við látum þær fylgja hér með;

Sýningarreglur ERL

Umhirða fugla, takmarkanir ofl.

Félögum í ERL er frjálst að sýna landnámshænsni endurgjaldslaust á öllum sýningum félagsins að þessum skilyrðum uppfylltum:

 • Að félagi sé skuldlaus við félagið.
 • Að fuglarnir séu heilbrigðir, hreinir og í góðu fiðri.
 • Að fuglarnir falli að útlitslýsingu landnámshænsna samkvæmt staðli ERL og/eða séu frá vottuðum ræktendum ERL

Sýningarstjóri sem skipaður er af stjórn ERL skal skoða hvern fugl áður en honum er komið fyrir í sýningarbúri og ganga úr skugga um að hann falli að útlitslýsingu landnámshænsna samkvæmt staðli ERL.

Félagið ber ábyrgð á fuglinum meðan hann er í sýningarbúri ERL, en eigandi eða staðgengill hans ber ábyrgð á flutningi hans milli staða.

Sé mikil aðsókn að sýningarbúrum félagsins á sýningum þess getur sýningarstjóri sett fjöldatakmark sýndra fugla á hvern félaga.

Auglýsingar og kynningar

Kynningar, auglýsingar og sala annarra en ERL eru ekki leyfðar á vinnusvæði félagsins og sýningum, fundum og námskeiðum þess.

Hægt er að fá undanþágu frá þessu af hálfu stjórnar með eftirfarandi skilyrðum:

 • Söluvara, kynningar- og auglýsingaefni skal tengdt landnámshænunni.
 • Leyfi skulu aðeins veitt skuldlausum félögum í ERL. Hægt er að veita auglýsendum utan félagsins (t.d. fyrirtækjum) leyfi til auglýsinga eða kynninga, en þá aðeins gegn umsömdu gjaldi sem rennur beint til félagsins.
 • Kynningarefni og/eða auglýsingar liggi frammi á fyrirfram ákveðnu svæði. Ekki er leyfilegt að dreifa efni á samkomusvæði ERL nema á vegum félagsins sjálfs.

Aldrei má veita leyfi til kynninga, auglýsinga eða sölu í því magni að það skyggi á nokkurn hátt á félagið sjálft eða viðfangsefni samkomunnar.

Sölustarfsemi

Sala fari aðeins fram á fyrirframákveðnu svæði.

Sýningarstjóri veitir söluleyfi á sýningum og seljandi greiði 20% af sölunni til félagsins. Á öðrum samkomum veitir stjórn ERL leyfið og greiðir seljandi 20% af sölunni til félagsins.

Eggjasala á sýningum ERL

Eggjasala skal eingöngu vera á vegum félagsins, enda skoðast hún sem auglýsing fyrir framleiðsluvöru landnámshænunnar. Eggjabakkar skulu vera merktir með merki félagsins og nafni framleiðanda. Öll innkoma vegna eggjasölunnar rennur beint til félagsins.

Egg má einungis selja á sýningum frá félagsmönnum með vottaðar hænur sem standast útlitsstaðal ERL.

Sýningarbúr ERL

Búr félagsins eru eingöngu ætluð til sýningar á vegum þess. Ákvarðanir stjórnar um sýningar skulu teknar á vormánuðum og annast stjórnin samninga við samstarfsaðila, s.s. sýningarhaldara eða eiganda sýningarsvæðis. Félagið lánar búrin, leggur til sýningarstjóra og annað starfsfólk eftir föngum, svo og sýningargögn og verðlaun. Sýningarstjóri ber ábyrgð á skilum búranna í geymslu.

Samstarfsaðili greiðir kostnað af flutningi búra, húsnæði og þrifum.

Öll vinna við sýningarfélagsins er sjálfboðavinna

02.12.2017

Af Landnámshænunni

Árlegt tímarit félagsins, Landnámshænan 2017 kom út í október síðastliðnum. Blaðið hefur verið sent á alla félagsmenn sem greitt hafa árgjaldið. Jafnframt hefur því verið komið í dreyfingu hjá nokkrum auglýsendum s.s. Fóðurblöndunni, Líflandi og fleirum. Alls voru send blöð á 40 bókasöfn víðsvegar um landið, þar sem þau verða vonandi aðgengileg gestum safnanna.

04.11.2017

Aðalfundi frestað!

Veðurspá fyrir morgundaginn er ekki góð og gera spárnar ráð fyrir vondu veðri seinnipartinn á morgun. Einmitt þegar fundargestir væru á heimleið af aðalfundi. Því höfum við ákveðið að láta skynsemina ráða og frestum aðalfundi ERL um viku.

Aðalfundarboð - ný dagsetning

Fundurinn verður sunnudaginn 12. nóvember 2017 kl. 14:00
Í Félagsheimili Ásatrúarfélagsins, Síðumúla 15 í Reykjavík.

Kveðja stjórn ERL,

Hugi Ármannsson - formaður
Valgerður Auðunsdóttir - gjaldkeri
Magnús Ingimarsson - ritari

* Ef það eru einhverjar spurningar er hægt að hafa samband við einhvern ofantalinn.

04.11.2017

Aðalfundur 2017

Aðalfundarboð!

Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna (ERL)

Stjórn ERL boðar til aðalfundar 2017

Sunnudaginn 5. Nóvember 2017 kl. 14:00

Í Félagsheimili Ásatrúarfélagsins, Síðumúla 15 í Reykjavík

Efni fundar:

 • Kosning fundarstjóra og fundarritara
 • Skýrsla stjórnar
 • Reikningsskil
 • Hefðbundin aðalfundarstörf
 • Kosningar (ritari og varamaður í stjórn)

 

Með góðri kveðju,

F.h. stjórnar. Hugi Ármannsson formaður

 

22.09.2017

Námskeið um Landnámshænuna á döfinni!

20.08.2017

Sýningar sumarsins

Nú eru sýningar félagsins yfirstaðnar. Sú fyrri fór fram á Hvanneyri/Hvanneyrarhátíð þann 8. júlí síðastliðinn og sú seinni var haldin á Trilludögum dagana 29 og 30 júlí.

Sýningarnar fóru báðar vel fram og var áhugi og fólksfjöldi sem heimsótti sýningarnar fram úr okkar björtustu vonum. Þeim sem lögðu leið sýna á sýningarnar eða lögðu hönd á plóg við framkvæmd þeirra eru færðar bestu þakkir fyrir.

Nánar verður fjallað um sýningarnar í ársriti félagsins, Landnámshænan 2017 sem kemur út í haust. Ekki er þó hægt að sleppa því að birta hér sýnishorn frá sýningunum.

Á Hvanneyri í gömlu fjóshlöðunni, sem nú er hluti af Landbúnaðarsafni Íslands

Glæsilegur hani á sýningunni á Siglufirði (því miður vill heimasíðuforritið alls ekki snúa myndinni á réttan kjöl =) )

 

20.08.2017

Óværa í hænsnahúsum

Nýlega barst stjórn ERL ábending um mjög áhugaverða grein um Rauða hænsnamítilinn Dermanyssus gallinae. Greinin er skrifuð af Karli Skírnissyni dýrafræðingi á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og birtist á Vísindavefnum. 

Greinin er skrifuð eftir að Rauði hænsnamítillinn greindist á hænum í bakgarði á höfuðborgarsvæðinu og er birt 3. maí 2017 á Vísindavefnum.

Síðustjóri hvetur hænsnaeigendur til þess að lesa þessa ágætu grein, fræðast um Rauða hænsnamítilinn og bæta þannig í sarp fróðleiks um sjúkdóma en þannig eru mestar líkur á að maður geti greint hvenær sjúkdómar eða óværa steðjar að í hænsnakofanum.

Best er að smella hér á hlekkinn til þess að lesa um Rauða hænsnamítilinn á Vísindavefnum:

https://www.visindavefur.is/svar.php?id=73932

 

02.07.2017

Sýningar á landnámshænum - sumar 2017

Árlega hefur ERL reynt að standa fyrir a.m.k. einni sýningu á landnámshænum að sumri. Nú liggja fyrir tímasetningar á tveimur sýningum sem fyrirhugaðar eru sumarið 2017.

Allir velkomnir á þessar hátíðir!

Sýning ERL á Hvanneyrarhátíð, Hvanneyri í Borgarfirði 8. júlí 2017
?(Umsjónarmenn; Valgerður Auðunsdóttir s: 896-5736 og Magnús Ingimarsson s: 849-1445)

Sýning ERL á Trilludögum á Siglufirði, dagana 29 - 30. júlí 2017
(Umsjónarmaður; Ingi Vignir Gunnlaugsson s: 847-6919)

Félagsmönnum gefst kostur á að koma með fugla á sýninguna á Hvanneyri. Skilyrðin fyrir því eru að fuglinn standist útlitsstaðal ERL og búið sé að hafa samband við umsjónarmenn sýningarinnar og boða komu sýna. Fuglarnir þurfa að sjálfsögðu að vera í fallegu fiðri og vel til hafðir :) Fjöldi sýningarbúra setja aðsókn sýningarfugla takmörk.

Sýningin á Trilludögum er sýning í nafni ERL en í fullri umsjón Inga Vignis sem unnið hefur lengi að undirbúningi hennar.

Nánari dagskrá Hvanneyrarhátíðar;

 

Mynd frá Hvanneyrarhátíð.

Nánari dagskrá Trilludaga á Siglufirði;

https://www.fjallabyggd.is/is/dagatal/naestu-vidburdir/trilludagar-fjolskyldudagar-a-siglufirdi?

Trilludagar_auglbordi_400px.jpg

Trilludagar 29. - 30. júlí 2017

Dagskrá

Föstudagur 28. júlí

Kl. 16:00 Ljóðasetur Íslands -  Lifandi viðburður

Kl. 19:00 Tapas og trillustemning á Kaffi Klöru

Laugardagur 29. júlí

*Kl. 09:00 - Fríða súkkulaðihlaupið 10 km. Ræst út við Frida Súkkulaðikaffihús. Skráning  á www.hlaup.is

Setning Trilludaga

Kl. 10:00 - 10:15 Setning Trilludaga

Kl. 10:15 - 17:00 Frítt á sjóstöng og í útsýnissiglingar út á fjörðinn fagra

Kl. 10:00 - 17:00 Landnámshænur -  Sýning

*Kl. 11:00 - 12:00 Súkkulaðihlaup 3 km fjölskylduskokk, ræst út við Frida Súkkulaðikaffihús.

Kl. 11:00 - 18:00 Grill, fjör og harmonikkutónlist á hafnarsvæðinu allan daginn

*Kl. 12:00 -13:00 Síldar- og sjávarréttarhlaðborð - Hannes Boy

Kl. 12:00 - 13:00 Verðlaunaafhending í Súkkulaðihlaupi.,  Athöfn við Frida Súkkulaðikaffihús

Kl. 13:30 - 14:00 Söngvaborg skemmtir yngri kynslóðinni á Rauðkusviði

Kl. 14:30 - 15:00 Síldargengið tekur rúnt um miðbæinn

Kl. 15:00 - 16:00 Síldarsöltun við Síldarminjasafnið. Söltuð síld við Róaldsbrakka. Harmonikkuleikur og bryggjuball að sýningu lokinni

Kl. 18:00 - 18:20 Leikhópurinn Lotta á Rauðkusviði

Kl. 19:00 Tapas og trillustemning á Kaffi Klöru

Kl. 20:00 -  21:00 Trillufjör á Rauðkusviði, tónlistarmenn koma fram

Sunnudagur 30. júlí

*Kl. 11:00 Opna Rammamótið ræst út kl. 11:00  á Golfvellinum í Ólafsfirði - Sjá nánar á www.golf.is

Kl. 11.00 - 12:00 Messa í Skarðdalsskógi, (skógræktinni) undir berum himni. Séra Sigurður Ægisson messar.

Kl. 11:00 - Landnámshænur - Sýning

*Kl. 13:00 - 14:00 Leikhópurinn Lotta. Leiksýning á Blöndalslóð

Kl. 14:00 -15:30 Hestasport fyrir krakka við Mjölhúsið.  Fjölskyldan á Sauðanesi kemur með hestana sína í bæinn og leyfir krökkum að fara á bak

Kl. 14:00 - 16:00 Trilludagskrá á Rauðkusvið, tónlistarmenn koma fram

*Viðburðir sem krefjast aðgöngueyris 

 

Sýningarreglur ERL:

 

Sýningarreglur ERL

Nýlega (2016) voru gerðar breytingar á sýningarreglum ERL og eru þær hér í endurbættri útgáfu:

Umhirða fugla, takmarkanir ofl.

Félögum í ERL er frjálst að sýna landnámshænsni endurgjaldslaust á öllum sýningum félagsins að þessum skilyrðum uppfylltum:

 • Að félagi sé skuldlaus við félagið.
 • Að fuglarnir séu heilbrigðir, hreinir og í góðu fiðri.
 • Að fuglarnir falli að útlitslýsingu landnámshænsna samkvæmt staðli ERL og/eða séu frá vottuðum ræktendum ERL
   

Sýningarstjóri sem skipaður er af stjórn ERL skal skoða hvern fugl áður en honum er komið fyrir í sýningarbúri og ganga úr skugga um að hann falli að útlitslýsingu landnámshænsna samkvæmt staðli ERL.

Félagið ber ábyrgð á fuglinum meðan hann er í sýningarbúri ERL, en eigandi eða staðgengill hans ber ábyrgð á flutningi hans milli staða.

Sé mikil aðsókn að sýningarbúrum félagsins á sýningum þess getur sýningarstjóri sett fjöldatakmark sýndra fugla á hvern félaga.

Auglýsingar og kynningar

Kynningar, auglýsingar og sala annarra en ERL eru ekki leyfðar á vinnusvæði félagsins og sýningum, fundum og námskeiðum þess.

Hægt er að fá undanþágu frá þessu af hálfu stjórnar með eftirfarandi skilyrðum:

 • Söluvara, kynningar- og auglýsingaefni skal tengdt landnámshænunni.
 • Leyfi skulu aðeins veitt skuldlausum félögum í ERL. Hægt er að veita auglýsendum utan félagsins (t.d. fyrirtækjum) leyfi til auglýsinga eða kynninga, en þá aðeins gegn umsömdu gjaldi sem rennur beint til félagsins.
 • Kynningarefni og/eða auglýsingar liggi frammi á fyrirfram ákveðnu svæði. Ekki er leyfilegt að dreifa efni á samkomusvæði ERL nema á vegum félagsins sjálfs.
   

Aldrei má veita leyfi til kynninga, auglýsinga eða sölu í því magni að það skyggi á nokkurn hátt á félagið sjálft eða viðfangsefni samkomunnar.

Sölustarfsemi

Sala fari aðeins fram á fyrirframákveðnu svæði.

Sýningarstjóri veitir söluleyfi á sýningum og seljandi greiði 20% af sölunni til félagsins. Á öðrum samkomum veitir stjórn ERL leyfið og greiðir seljandi 20% af sölunni til félagsins.

Eggjasala á sýningum ERL

Eggjasala skal eingöngu vera á vegum félagsins, enda skoðast hún sem auglýsing fyrir framleiðsluvöru landnámshænunnar. Eggjabakkar skulu vera merktir með merki félagsins og nafni framleiðanda. Öll innkoma vegna eggjasölunnar rennur beint til félagsins.

Egg má einungis selja á sýningum frá félagsmönnum með vottaðar hænur sem standast útlitsstaðal ERL.

Sýningarbúr ERL

Búr félagsins eru eingöngu ætluð til sýningar á vegum þess. Ákvarðanir stjórnar um sýningar skulu teknar á vormánuðum og annast stjórnin samninga við samstarfsaðila, s.s. sýningarhaldara eða eiganda sýningarsvæðis. Félagið lánar búrin, leggur til sýningarstjóra og annað starfsfólk eftir föngum, svo og sýningargögn og verðlaun. Sýningarstjóri ber ábyrgð á skilum búranna í geymslu.

Samstarfsaðili greiðir kostnað af flutningi búra, húsnæði og þrifum.

Öll vinna við sýningarfélagsins er sjálfboðavinna

09.06.2017

Varúðarráðstöfunum vegna fuglaflensu aflétt

Þetta er nú orðin nokkuð gömul frétt en verður birt hér til staðfestingar og aðgengis að fréttinni. Frétt Matvælastofnunar frá 19. maí síðastliðnum verður byrt hér í heild sinni:

Starfshópur vegna fuglaflensu, sem í sitja sérfræðingar Matvælastofnunar, Háskóla Íslands og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum, telur nú litlar líkur á að alvarlegt afbrigði af fuglaflensu sé til staðar í villtum fuglum hér á landi. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið felldi úr gildi í dag þær tímabundnu varúðarráðstafanir sem fyrirskipaðar voru með auglýsingu nr. 241/2017, að tillögu Matvælastofnunar.

Frá mars á þessu ári hafa borist 26 tilkynningar um samtals 54 dauða fugla. Ekki var í öllum tilvikum hægt að taka sýni vegna þess að hræin voru uppétin eða horfin þegar sýnatökumaður mætti á staðinn. Í einhverjum tilvikum var ekki talin ástæða til að taka sýni vegna vísbendingar um að viðkomandi fugl hafi slasast en hafi líklega ekki verið veikur. Sýni voru tekin úr 14 fuglum og hafa þau öll verið neikvæð. Auk þess bendir lítill fjöldi tilkynninga til þess að ekki hafi verið óeðlileg veikindi og dauðsföll í villtum fuglum.

Til viðbótar voru tekin sýni úr 120 álftum sem voru nýkomnar til landsins og komu frá svæðum sem fuglaflensa hefur greinst á. Þau sýni hafa öll verið neikvæð. Sama niðurstaða fékkst úr 39 sýnum úr heiðargæsum, ekki greindist fuglaflensa í þeim. Sýnin voru tekin af fuglafræðingi frá Háskóla Íslands og allar rannsóknir fóru fram á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Fá tilfelli fuglaflensu hafa komið upp í Evrópu undanfarið. Komið er vor og hitastig fer hækkandi sem minnkar líkur á að fuglaflensuveirur, ef þær eru til staðar, geti lifað lengi í umhverfinu. Flestir farfuglar eru þegar komnir til landsins.

Með hliðsjón af þessum þáttum, sem nefndir eru hér, komst starfshópurinn að þeirra niðurstöðu að litlar líkur séu á að alvarlegt afbrigði af fuglaflensu sé til staðar í villtum fuglum hérlendis, þótt ekki sé hægt að útiloka það. Smithætta fyrir alifugla og aðra fugla í haldi eru litlar, sérstaklega þar sem góðar smitvarnir eru til staðar til að fyrirbyggja smit frá villtum fuglum. Samkvæmt auglýsingu ráðuneytisins er þess ekki lengur krafist að alifuglar og aðrir fuglar í haldi séu haldnir í lokuðu gerði og undir þaki eða innandyra. En þar sem ekki er hægt að útiloka að skæðar fuglaflensuveirur séu til staðar hérlendis, eru fuglaeigendur áfram hvattir að viðhalda góðum smitvörnum skv. ráðleggingum Matvælastofnunar um viðbúnaðarstig 1, sjá hér að neðan.  Nánari leiðbeiningar veitir Matvælastofnun í síma 530-4800.

Mikilvægt er að fuglaeigendur fylgist áfram náið með heilbrigði fugla sinna og tilkynni tafarlaust til Matvælastofnunar um aukin dauðsföll eða grunsamleg veikindi meðal þeirra. Almenningur er áfram beðinn um að tilkynna til Matvælastofnunar um dauða villta fugla þegar orsök er ekki augljós, svo sem flug á rafmagnslínur, rúður eða fyrir bíla.

Viðbúnaðarstig 1: Lítil hætta

Þetta viðbúnaðarstig er alltaf í gildi.

Tilkynningar

 

 1. Tilkynna skal til Matvælastofnunar um dauða villta fugla, þegar orsök dauða er ekki augljós, svo sem flug á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla.
 2. Aukin dauðsföll eða grunsamleg veikindi í alifuglum og öðrum fuglum í haldi skal tilkynna til Matvælastofnunar.
     Leiðbeinandi viðmið:
      - Minnkun á fóðurnotkun og vatnsnotkun um meira en 20%.
      - Minnkun á varpi um meira en 5% á tveimur dögum.
      - Afföll meiri en 3% á einni viku.
      - Sjúkdómseinkenni, s.s. bólginn haus, öndunarerfiðleikar, niðurgangur og blæðingar í húð á fótum, 
  sjá nánar hér.

Lágmarks smitvarnir fyrir alifugla og aðra fugla í haldi

 

 1. Forðast skal að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla.
 2. Fóður og drykkjarvatn skal ekki aðgengilegt villtum fuglum.
 3. Fuglahúsum skal vel við haldið.
 4. Almennar góðar smitvarnir skulu viðhafðar.

 

 

 

24.03.2017

Áríðandi tilkynning til alifuglaeigenda!

Viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu hefur verið aukið og nú gilda reglur um auknar smitvarnir. Lesa má um þetta á heimasíðu Matvælastofnunar, www.mast.is

Sjá:

http://www.mast.is/frettaflokkar/frett/2017/03/23/Aukid-vidbunadarstig-vegna-fuglaflensu/

Félaginu ERL hefur borist tilkynning frá MAST þess eðlis að láta orðið berast um að sérstaka aðgát skal hafa. Einna mikilvægustu atriðin eru þessi:

1. Eigendur fugla hafa tafarlaust samband við Matvælastofnun, ef grunsamleg veikindi eða dauðsföll koma upp í hænum.

2. Viðhafa góðar smitvarnir.  T.d. nota ekki skóbúnað sem verið er í hænsnakofanum úti í garði eða annarsstaðar þar sem skítur úr öðrum fuglum er. Passa að viltir fuglar komist ekki vatn og fóður. - Sjá nánari leiðbeningar hér að neðan þar sem frétt MAST byrtist í heild sinni.

3. Matvælastofnun hvetur alla fuglaeigendur að skrá sitt fuglahald hjá MAST, ef þeir hafa ekki þegar gert það, í gegnum Bústofn. Þetta gerir Mast auðveldara að hafa samband við fuglaeigendur á ákveðnum svæðum, ef eitthvað kemur upp á.

4. Rétt er að minnast á að þetta viðbúnaðarstig er einungis til varnaðar hugsanlegu smiti og frístundabændur eru alls ekki hvattir til þess að fella sína fugla! Þessi tilmæli eru tímabundin og mun MAST tilkynna breytingar um leið og ástæða þykir.

 

Hér er frétt MAST í heild sinni frá 23. mars sl.:

Myndaniðurstaða fyrir lógó matvælastofnun

 

Viðbúnaðarstig vegna varna gegn fuglaflensu hefur verið aukið. Það þýðir að allir fuglar í haldi þurfa tímabundið að vera haldnir í yfirbyggðum gerðum þar sem villtir fuglar komast ekki inn eða í fuglaheldum húsum. Smitvarnir skulu viðhafðar sem miða að því að ekki getur borist smit frá villtum fuglum í alifugla. Allir alifuglar skulu skráðir í gagnagrunninum Bústofn.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt auglýsingu um tímabundnar varnaraðgerðir til að fyrirbyggja að fuglaflensa berist í alifugla og aðra fugla í haldi. Var það gert á grundvelli tillögu Matvælastofnunar til ráðuneytisins vegna mikillar útbreiðslu fuglaflensu af völdum alvarlegs afbrigðis fuglaflensuveiru af semisgerðinni H5N8 í Evrópu frá því í október í fyrra. Alvarlega afbrigðið H5N8 hefur m.a. greinst á þeim slóðum sem íslenskir farfuglar halda sig að vetri til.

Starfshópur, sem skipaður er sérfræðingum Matvælastofnunar, Háskóla Íslands, Tilraunastöðvar HÍ að Keldum og sóttvarnalæknis, hefur metið ástandið og komist að þeirri niðurstöðu að töluverðar líkur eru á að þetta alvarlega afbrigði fuglaflensuveirunnar berist með farfuglunum sem nú eru farnir að streyma til landsins. Í þeim faraldri sem geisar í Evrópu nú er smit frá villtum fuglum talin vera megin smitleiðin í alifugla. Það er því hætta á að alifuglar hér á landi smitist af þeim farfuglunum sem koma frá sýktum svæðum, sér í lagi þeir sem haldnir eru utandyra og þar sem smitvörnum er ábótavant. Afleiðingar sjúkdómsins eru alvarlegar, þar sem stór hluti fuglanna getur drepist og fyrirskipa þarf aflífun á öllum fuglum á búi sem fuglaflensa greinist á, auk ýmis konar takmarkana sem leggja þarf á starfsemi á stóru svæði umhverfis viðkomandi bú. Ekki er talin vera smithætta fyrir fólk af þessu afbrigði fuglaflensuveirunnar og ekki stafar smithætta af neyslu afurða úr alifuglum. Það er óvíst hvað aukið viðbúnaðarstig mun vara í langan tíma en starfshópurinn endurmetur smithættuna reglulega.

Eftirfarandi reglur um smitvarnir hafa verið birtar:

a) Fuglarnir skulu hafðir inni í yfirbyggðum gerðum eða húsum.

b) Tryggja skal góðan aðskilnað milli alifugla og villtra fugla. Hús og gerði skulu vera fuglaheld.

c) Tryggja skal að ekkert í umhverfi fuglahúsanna laði að villta fugla.

d) Fóður og drykkjarvatn fuglanna skal ekki vera aðgengilegt villtum fuglum.

e) Endur og gæsir skulu aðskildar frá hænsnfuglum.

f) Setja skal hatta á allar lóðréttar loftræstitúður og fuglanet fyrir allar loftræstitúður, op og glugga á fuglahúsum.

g) Öllum óviðkomandi skal bannaður aðgangur að fuglahúsum.

h) Allir sem sinna fuglunum skulu nota hlífðarfatnað (galla og stígvél), sem eingöngu er notaður þar, og skulu þeir einnig þvo og sótthreinsa hendur fyrir og eftir umhirðu fuglanna.

i) Áður en fuglar eru fengnir frá öðrum búum skal spyrjast fyrir um hvort heilsufar fugla á búinu hafi verið eðlilegt. Fuglar skulu ekki teknir inn á bú frá búum þar sem sjúkdómsstaða er óþekkt eða eitthvað virðist vera athugavert við heilsufar.

j) Mælt er með "allt inn - allt út" kerfi, þ.e.a.s. að allir fuglar séu fjarlægðir af búi áður en nýir eru teknir inn.

k) Hús og gerði skulu þrifin vel og sótthreinsuð á milli hópa.

l) Farga skal dauðum fuglum, undirburði og skít á öruggan hátt.

m) Tryggja skal góðar smitvarnir við vatnsból.

n) Sýningarhald og aðrar samkomur með fugla er bannað.

Fyrir eigendur alifuglabúa með 250 fugla eða fleiri gilda að auki ákvæði í 20. og 21. grein um smitvarnir í reglugerð nr. 135/2015 um velferð alifugla.

Huga skal að velferð alifugla í frístundahaldi meðan þeir eru haldnir í meira aðhaldi en þeir eru vanir, sjá leiðbeiningar Matvælastofnunar þess efnis.

Mikilvægt er að allir alifuglar séu skráðir í gagnagrunninum Matvælastofnunar, Bústofn, líka þegar um fáa alifugla er að ræða. Þeir sem hafa ekki þegar gert það eru beðnir um að tilkynna alifuglahaldið sitt til Matvælastofnunar, með tölvupósti á mast@mast.is. Matvælastofnun gengur svo frá skráningu. Þessar upplýsingar eru mikilvægar svo Matvælastofnun geti haft samband við alifuglaeigendur á ákveðnum svæðum, sé þess þörf.

Áfram er það mikilvægt fyrir Matvælastofnun að fá tilkynningu um dauða fugla, þegar orsök dauða er ekki augljós (svo sem þegar flogið er á rafmagnslínur, á rúður eða fyrir bíla). Eins og áður var bent á þá er þetta afbrigði fuglaflensuveirunnar H5N8 ekki hættulegt mönnum en best er að snerta ekki fuglinn og tilkynna tafarlaust um fundinn.

Matvælastofnun mun auka vöktun á tilvist fuglaflensuveira í villtum fuglum nú í vor með sýnatökum úr þeim fuglum sem eru líklegastir til að bera fuglaflensuveirur. 

 

Knúið áfram af 123.is