Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna

Velkomin  Fréttir

26.09.2016

Haustsýning landnámshænunnar 2016

Haustsýning ERL á landnámshænunni sem fram fór í Gróðrastöðinni Storð í gær 25. september fór vel fram. Veður var ótrúlega gott miðað við að töluvert er liðið á haustið. Sýningin fór fram utandyra enda veðurguðirnir okkur hliðhollir en ekki kom dropi úr lofti meðan á sýningunni stóð.

 

Gestum sem komu að skoða og félagsmönnum sem komu með fugla til sýningar eru færðar bestu þakkir fyrir komuna og skemmtilegt og ánægjulegt spjall. Hjónunum Vernharði Gunnarssyni og Björgu Árnadóttur eigendum Gróðrastöðvarinnar storð eru færðar bestu þakkir fyrir góðar móttökur, hjálpsemi og góða aðstöðu.

Með kveðju, stjórn ERL

 

12.09.2016

Sýning á landnámshænunni - haust 2016

Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna tilkynnir sýningu!

ATH breytt staðsetning!

ERL mun halda sýningu á landnámshænunni í Gróðrastöðinni Storð, Dalvegi 30 í Kópavogi þann 25. September næstkomandi frá klukkan 13:00-16:00.

Öllum félögum er velkomið að koma með fugla úr sinni ræktun og sýna, standist þeir útlitsstaðal félagsins. Einnig eru allir velkomnir að koma og skoða.

Stjórn ERL hvetur þá sem hafa áhuga á að sýna fugla að hafa samband við Valgerði Auðunsdóttur gjaldkera félagsins, í síma 896-5736. Einnig er hægt að hafa samband í gegnum hnappinn "PÓSTUR/MAIL" á heimasíðu félagsins.

* Sýningin átti að vera þann 25. Sept. í Húsdýragarðinum í Reykjavík en því miður þurftum við að færa sýninguna og verður hún sem áður segir í Gróðrastöðinni Storð í Kópavogi. Endilega látið orðið berast.

Með kveðju, Stjórn ERL

03.09.2016

Tímaritið Landnámshænan komið út!

Ágætu félagsmenn.

Nú hefur árlegt tölublað af Landnámshænunni litið dagsins ljós árið 2016 og hefur það verið sent félagsmönnum í pósti. Blaðinu verður svo dreift á næstu dögum og vikum þar sem það verður látið liggja frammi hjá t.d. fóðurfyrirtækjum og fleiri stöðum.

Ef einhverjir félagsmenn hafa ekki fengið blaðið í pósti innan fárra daga en hafa greitt árgjald félagsins fyrir árið 2016 eru þeir sömu beðnir um að hafa samband við einhvern í stjórn félagsins í gegnum síma eða í gegnum póstform heimasíðunnar. Blaðið fór í póst þann 2. september.

Það er von stjórnar að blaðið veiti félagsmönnum og öðru áhugafólki um landnámshænunna ánægju :)

Með kveðju, Stjórn ERL

03.09.2016

Landnámshænan á Hvanneyrarhátið

Þann 9. Júlí síðastliðinn fór fram hátíð heimamanna á Hvanneyri í Borgarfirði, Hvanneyrarhátíð. Heimamenn bjóða gestum og gangandi að taka þátt í ýmsum uppákomum. Þar á meðal var Landbúnaðarsafn Íslands opið og Erfðalindasetur landbúnaðarháskóla Íslands var með íslenskt búfé til sýnis. Þar mátti sjá íslenska kú með kálf, geitur, forystusauð og ekki síst nokkrar landnámshænur á vegum Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna.

25.06.2016

Störf stjórnar

Stjórn félagsins hefur fundað um nokkur atriði, meðal annars sýningarhald, tímaritið Landnámshænuna og námskeiðahald.

Ráðgert er að halda sýningu á vegum félagsins í ágúst næstkomandi í Húsdýragarðinum í Reykjavík. Dagsetning verður auglýst þegar nær dregur. Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt í sýningunni. Skráningarfyrirkomulag og skráning sýningarfugla og önnur mikilvæg atriði verður imprað á þegar nákvæmari auglýsing byrtist.

Þá að árlegu blaði félagsins, Landnámshænan. Blaðið lítur vonandi dagsins ljós seinna í sumar en söfnun efnis og skrif greina standa nú yfir. Í því samhengi er tilefni til að óska eftir skemmtilegum ljósmyndum úr fórum félagsmanna af landnámshænunni sem mætti nota til myndskreytinga í blaðinu. Myndir mættu gjarnan sendast á Magnús Ingimarsson ritara félagsins á netfangið: m.ingimars@gmail.com og þyrftu helst að berast fyrir 5. júlí nk.

Fundargerðir hafa nú fengið sess á heimasíðunni undir flipanum "Félagið" en þar mun verða hægt að nálgast fundargerðir aðalfunda og stjórnarfunda á PDF-formi. Nú þegar hafa verið birtar fundargerðir aðalfunda árin 2014 og 2015. Það er vilji stjórnar að birta þetta en hingað til hafa fundargerðir verið ritaðar í fundargerðarbók og eru því ekki til á rafrænu formi, tekur þetta því tíma (enda ekki forgangsatriði meðan sýningar og blaðaskrif eru á efst á baugi).

Allar ábendingar eru einnig vel þegnar. Hvort sem það lýtur að blaðinu, sýningum eða öðru.

09.06.2016

Helstu fréttir af störfum félagsins

Ágætu félagar! Nú er virkilega kominn tími til að skrifa eitthvað hér.

Stjórn félagsins hefur fundað um nokkur atriði, meðal annars sýningarhald, tímaritið Landnámshænuna og námskeiðahald.

Ráðgert er að halda sýningu á vegum félagsins í ágúst næstkomandi í Húsdýragarðinum í Reykjavík. Dagsetning verður auglýst þegar nær dregur. Félagsmenn eru hvattir til að taka þátt í sýningunni. Skráningarfyrirkomulag og skráning sýningarfugla og önnur mikilvæg atriði verður imprað á þegar nákvæmari auglýsing byrtist.

Þá að árlegu blaði félagsins, Landnámshænan. Blaðið lítur vonandi dagsins ljós seinna í sumar en söfnun efnis og skrif greina standa nú yfir. Í því samhengi er tilefni til að óska eftir skemmtilegum ljósmyndum úr fórum félagsmanna af landnámshænunni sem mætti nota til myndskreytinga í blaðinu. Myndir sendist á Magnús ritara félagsins á netfangið: m.ingimars@gmail.com og þurfa að berast fyrir 1. júlí nk.

Allar ábendingar eru einnig vel þegnar.

28.10.2015

Aðalfundarboð!

 

 

Eigenda- og ræktendafélag landnámshænsna 

boðar til aðalfundar fyrir árið 2015 þann 7. nóvember. 

Fundurinn verður haldinn í kaffistofu Bændasamtakanna 

Bændahöllinni við Hagatorg kl. 14.00 (3 hæð)

 

 

Dagskrá:

Ávarp formanns.

Skýrsla stjórnar.

Venjuleg aðalfundarstörf.

Kosning gjaldkera

Kosning varamanns í stjórn.

Önnur mál.

 

Mætum sem flest og tökum þátt í umræðum um félagið okkar og það sem betur má fara.

Rödd þín skiptir máli.

 

Með bestu kveðjum

f.h. stjórnar.

Hugi Ármannsson formaður.

 

 

11.08.2015

Blaðið Landnámshænan

Nýja blaðið Landnámshænan fór í póst til ykkar í gær kæru félagar. Heldur seinna á ferðinni en venjulega vegna óviðráðanlegra orsaka.

Lítið hefur verið um hænsnasýningar þetta sumarið en eina sýningin sem við vitum af var á Eyrarbakka síðasta laugardag. Mikið var af fallegum fuglum en heldur færra af fólki en áður að skoða. Nú þegar bæjarhátíðir eru í öllum sveitarfélögum, jafnvel 2 til 3 yfir sumarið er óhjákvæmilegt að erfitt sé fyrir fólkið að velja hvern á að heimsækja. Sjálfri finnst mér leitt hversu lítill áhugi er hjá félagsmönnum að setja upp sýningar og löngu kominn tími til að endurvekja hann. Verum stolt af fallegu fuglunum okkar og setjum upp margar sýningar! Það er bara gaman!

Hér er verið að gefa saman fallegasta hanann og fallegustu hænuna í borgaralegt hænsnaband á Eyrarbakka! 

08.03.2015

Skoðun ræktunarbúa

Þann 20. september var farið í ferð um suðurlandið. Þetta var góður dagur og veðrið var dásamlegt. Við  hittum fullt af glæsilegum landnámshænum og hönum og svo fylgdi með skemmtilegt rabb við eigendurna, um hænsnin auðvitað. Af níu skoðuðum ræktunarbúum fengu sjö vottun, það er virkilega góð útkoma og svo kemur listinn upp á heimasíðunni fljótlega.

 Hugi Ármannsson formaður afhendir Kolbrúnu Júlíusdóttur vottunarskjalið.

08.03.2015

Umburðarbréf til ræktenda

 

Umburðarbréf til ræktenda landnámshænsna

Á aðalfundi Eigenda- og ræktendafélags landnámshænsna (ERL) 2011 var samþykkt samhljóða að skipa fimm manna nefnd til að semja tillögu að lýsingu á landnámshænunni. Nefndin starfaði sumarið 2012, hafði að leiðarljósi einkenni þeirra hænsna sem dr. Stefán Aðalsteinsson byggði upp í húsakynnum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins á Keldnaholti í Reykjavík fyrir nær 40 árum, og auk þess var rætt við fjölmarga sem þekkja til þessa stofns. Þá var aflað ýmissa upplýsinga erlendis frá, m.a. frá Norræna genbankanum, varðandi ákveðin einkenni í skyldum og óskyldum hænsnakynjum. Niðurstöður nefndarinnar voru kynntar félögum ERL og eftir umræður og minni háttar breytingar á þeim niðurstöðum var lýsingin samþykkt samhljóða á aðalfundi 2012 og kynnt rækilega, svo sem á vef- og fésbókarsíðum, í tölvupósti til ræktenda eftir föngum, og í fjölmiðlum.

Strax eftir að framangreindar reglur höfðu verið samþykktar og kynntar var farið að ræða um nauðsyn þess að tryggja sem best að ræktendur færu eftir reglunum. Nokkuð hafði borið á því að verið væri að selja, eða dreifa með öðrum hætti, fuglum sem ekki falla að viðurkenndri lýsingu landnámshænsna, m.a. með fiðraða leggi, ríkjandi eiginleika sem sennilega hefur borist inn í stofninn á seinni árum, trúlega úr belgískum eða frönskum kynjum, eða öðrum hænsnakynjum sem hafa "mengast" með þessum eiginleika. Eitt er víst að þessi eiginleiki þekkist ekki í upprunalega Keldnaholtsstofninum. Það sýna m.a. bæði myndir og umsagnir fólks sem hirti eða umgekkst þau hænsni, bæði þá og síðar.

Í rökréttu framhaldi af fyrri aðgerðum var lögð fram tillaga á aðalfundi 2013 um að ERL komi upp skrá yfir viðurkennda ræktendur landnámshænsna, samkvæmt gildandi reglum um útlits- og atferliseinkenni. Fundur þessi var óvenju fjölmennur, enda verið að halda upp á 10 ára afmæli félagsins, og kom fram í líflegum umræðum nær einróma álit á því að brýnt væri að koma betri reglu á ræktunarmálin. Var tillagan samþykkt óbreytt með öllum greiddum atkvæðum og er nú komið að því að vinna eftir henni og því er þetta umburðarbréf sent öllum félagsmönnum ERL.

Stjórn ERL er að hefja uppsetningu ræktendaskrár, einkum í tvennum tilgangi:

1)       Að koma reglu og festu á ræktunarstarfið, m.a. með því að varðveita sem best hina miklu erfðafjölbreytni sem einkennir kynið, svo sem í litum.

2)       Að tryggja kaupendum hreinræktaðra landnámshænsna fugla sem falla að lýsingu þeirra og sem þeir geta treyst á að uppfylli viðurkenndar kröfur ERL til hænsnanna, bæði í útliti og atferli.

Fyrsta skrefið er að skrá ræktunarhópa á einstökum búum og mynda þannig síðar  grundvöll undir skráningar einstakra, merktra, ræktunarhænsna á hverju búi til að renna styrkari stoðum undir varðveislu þess erfðaefnis sem í stofninum býr og koma í veg fyrir of mikla skyldleikarækt.

Hér með sendir ERL eyðublað sem einstökum ræktendum í félaginu er boðið að senda inn sem umsókn um skráningu í samræmi við gildandi reglur um viðurkennd útlits- og atferliseinkenni sem einnig fylgja með. Óskað er eftir að umsóknum verði skilað til stjórnar ERL sem fyrst. Svör við umsóknum munu berast svo fljótt sem auðið er að undangenginni úttekt á ræktun og aðbúnaði hænsnanna sem stjórnin eða fulltrúar hennar annast. Skrá þessi verður birt með vorinu á vefsíðu ERL, á fésbókarsíðunni  Landnámshænan (ræktendur), í ritinu Landnámshænan, Bændablaðinu og víðar eftir atvikum, og uppfærð með reglubundnum hætti þannig að nýir ræktendur geti bæst í hópinn jafnóðum og þeir hljóta viðurkenningu. Víki skráður ræktandi frá gildandi, viðurkenndri lýsingu á einkennum íslensku landnámshænunnar áskilur stjórn ERL sér rétt til að taka hann af skránni.

Það er allra hagur að sem best sé staðið að ræktun, dreifingu og aðbúnaði landnámshænsna og er það von stjórnar ERL að markviss skráning viðurkenndra ræktenda stuðli að því.

Með bestu kveðjum,

__________________________

Hugi Ármannsson

f.h. Eigenda- og ræktendafélags

landnámshænsna (ERL)

 

Knúið áfram af einfalt.is